21 nóv. 2018
Ísland mætti Bosníu í kvöld í lokaleik undankeppni EM 2019 sem fer fram í Lettlandi og Serbíu næsta sumar. Bosnía þurfti fyrir leikinn að vinna Ísland með yfir 40 stigum til að eiga möguleika á að fara áfram á meðan okkar stelpur voru úr leik.
Íslensku landsliðskonurnar byrjuðu leikinn ákveðnar að byrja sterkari en þær luku leik gegn Slóvakíu. Það gera þær með 7 – 1 „runni“ á fyrstu tveimur mínútunum gegn mótherjum sýnum sem enn eiga möguleika á að komast upp úr riðlinum. Að miklu leyti má þakka stöðuna lélegri skotnýtingu mótherjanna og góðri frákastabaráttu Íslands sem hinum megin voru fullar sjálfstrausts í hverju skoti. Þjálfari Bosníu, Goran Lojo, tekur þá leikhlé þegar 2:20 mínútur voru liðnar af leiknum. Það kom þeim aðeins inn í leikinn á meðan Ísland leitaði að glufum í svæðisvörn Bosníu. Þegar það gekk skildi aftur á milli þar sem ekkert gekk í leik Bosníukvenna en leikmönnum leið eins og öll skot Íslands færu sína leið, jafnvel með tæpa skotklukku og pressu í skoti. Að öðrum ólöstuðum var Unnur Tara ógnarsterk í vörninni og samvinna Helenu og Hildar gekk eins og skotklukka. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 26 – 13 Íslandi i vil.
2. leikhluti
Lítið niðurbrotnar en frekar pirraðar og ákveðnir leikmenn Bosníu mættu til annars leikhluta. Enn áttu þær í vandræðum í teig á báðum endum vallar þrátt fyrir að hæðarmismunurinn væri frekar þeim í hag. Líkamsburðir leikmanna og einföld leiktölfræði gefur þá einföldu skýringu að íslensku landsliðskonurnar eru einfaldlega líkamlega sterkari. Bosníukonur svara því misræmi með stífri pressuvörn upp völlinn á boltamann sem skilar bæði hraðaupphlaupum, stigum og pirring meðal mótherja sinna.Varnartaktík sem skilaði sínu sem kom stöðunni í 37 – 31 og leikurinn orðinn full spennandi þar sem lítið gekk hjá Íslandi utan teigs en Bosníukonur voru mun öflugri innan sem og utan teigs. Það var þegar Ísland fór í svæðisvörn og tvímenntu á bolta/skotmann að Bosnía lenti í vanda. Því miður leystu þær það fljótt og staðan í lok fyrri hálfleiks var 41 – 42 Bosníu í vil.
Þriðja leikhluta er best lýst sem áframhaldi á öðrum leikhluta. Mikil áhersla á vörn beggja liða með tilheyrandi mistökum og glötuðum boltum. Með öðrum orðum, barátta. Bosníukonur komu og ætluðu að selja sig dýrt enda sæti í lokakeppni í húfi. Engu að síður ætluðu íslensku landsliðskonurnar ekki að gefa neitt eftir. Þrátt fyrir góða mótspyrnu Íslands var staðan í lok leikhlutans 52 – 56 og Bosnía vann hann 11 – 14.
Þegar komið var í fjórða var íslenska liðið með bakið upp við vegginn alræmda. Bosníukonur gengu á lagið og héldu uppteknum hætti. Afleiðingin var sú að leiðin inn í teig og þar með talið á Hildi Björg var lokuð. Meðvitaðar um það refsuðu Bosníukonur grimmilega fyrir öll mistök með snöggum hraðaupphlaupum og sigldu þá framúr og kláruðu leikinn 74 – 84.
#korfubolti #eurobasketwomen