12 jún. 2018
Íslenska landsliðið kemur saman í vikunni til æfinga og undirbúnings fyrir komandi tvo leiki í undankeppni HM 2019 sem fram fara í lok júní og byrjun júlí.
Þetta eru síðustu leikir liðsins í fyrri umferðinni og eftir þá ræðst hvar liðið stendur og hvert framhaldið verður. Ísland leikur í F-riliði og staðan í honum Tékkland (3/1), Ísland (2/2), Finnland (2/2) og Búlgaría (1/3) fyrir lokaleikina sem framundan eru. Þrjú efstu liðin fara áfram í aðra umferð en þá blandast E og F riðlar saman í einn sex liða riðil. Í E-riðli eru Frakkland, Rússland, Bosnía og Belgía. Eftir sameiningu og umferð tvö þessara sex liða fara fjögur efstu af þeim á HM í Kína.
Það er því um mjög mikilvæga leiki að ræða fyrir næstu skref íslenska liðsins í að tryggja sér sæti áfram í HM undankeppninni sem og upp á röðun í undankeppni EM 2021.
Báðir leikirnir í sumar fara fram á útivelli og mun RÚV sýna beint frá þeim báðum. Ljóst er að íslenska liðið þarf sigur gegn Búlgaríu til að gulltryggja sér sæti í annarri umferðinni strax en leikurinn gegn Búlgaríu fer fram þann 29. júní og hefst hann kl. 19:00 að staðartíma eða kl. 16:00 að íslenskum tíma.
Fari leikar svo að Búlgaría vinni leikinn munu þeir alltaf enda fyrir ofan okkur í riðlinum nema að við leggjum Finna í Hartwall-Arena þann 2. júlí í síðari leiknum, en á þann leik eru allir miðar uppseldir og verða þar 11 þúsund manns staddir að hvetja heimamenn áfram gegn tæplega 100 íslendingum, en leikmenn og fylgdarlið U16 og U18 liðanna verða þar stödd á Norðurlandamóti yngri liða í Finnlandi á sama tíma og mæta á leikinn.
Það er því ljóst að leikurinn gegn Búlgaríu er mjög mikilvægur og mikið undir fyrir okkar lið.
Æfingahópur Íslands er þannig skipaður í sumar:
Breki Gylfason - Haukar (Nýliði)
Elvar Már Friðriksson - Barry University, USA (32)
Haukur Helgi Pálsson Briem - Cholet Basket, Frakkland (65)
Hjálmar Stefánsson - Haukar (Nýliði)
Hlynur Bæringsson - Stjarnan (120)
Hörður Axel Vilhjálmsson - Kymis, Grikkland (72)
Jón Arnór Stefánsson - KR (98)
Jón Axel Guðmundsson - Davidson, USA (5)
Kári Jónsson - Haukar (7)
Kristófer Acox - KR (34)
Martin Hermannsson - Châlons-Reims, Frakkland (60)
Ólafur Ólafsson - Grindavík (24)
Pétur Rúnar Birgisson - Tindastóll (7)
Tryggvi Snær Hlinason - Valencia, Spánn (27)
Ægir Þór Steinarsson - Tau Castelló, Spánn (53)
Eftirtaldir leikmenn voru einnig valdir en gefa ekki kost á sér að þessu sinni:
Matthías Orri Sigurðarson - ÍR · Gefur ekki kost á sér
S. Arnar Björnsson - Tindastóll · Meiddur
Pavel Ermolinskij - KR · Meiddur
Tómas Hilmarsson - Stjarnan · Gefur ekki kost á sér
Hægt er að sjá allt um stöðu riðla og keppnina á heimasíðu: mótsins: http://www.fiba.basketball/basketballworldcup/2019/european-qualifiers
#korfubolti