3 maí 2018Fyrir skömmu ákvað Arnar Guðjónsson, þjálfari U20 landsliðs karla og aðstoðarþjálfari A-liðs karla, eftir því að fá að segja sig frá störfum hjá KKÍ þegar ljóst var að hann samdi við Stjörnuna um að vera aðalþjálfari liðsins næsta vetur.
KKÍ varð við ósk Arnars og í fyrsta lagi þakkar honum frábær störf fyrir íslenska landsliðið á undanförnum árum og þá óskar KKÍ honum alls hins besta í sínum störfum í vetur.
Áður hafði verið búið að ganga frá því að Baldur Þór Ragnarsson yrði áfram með liðinu í þjálfarateyminu líkt og undanfarin ár sem aðstoðar- og styrktarþjálfari sem og Israel Martin, þjálfari Tindastóls, sem hafði bæst við í þjálfarateymi liðsins.
Nú hefur verið gengið frá því að Israel Martin taki við af Arnari og verði aðalþjálfari liðsins í sumar og Baldur Þór verði honum til aðstoðar og verði styrktarþjálfari liðsins.
Framundan hjá liðinu eru æfingar í lok maí og í júní og svo Evrópukeppni FIBA í A-deild U20 landsliða en mótið ferm fram í Chemnitz í Þýskalandi dagana 14.-22. júlí. Þetta er í annað sinn sem Ísland á lið í A-deild U20 liða en á síðasta ári hafnaði Ísland í 8. sæti deildarinnar af 16 liðum.
KKÍ býður Israel Martin velkominn til starfa.
#korfubolti