20 mar. 2018
Stjórnarfundur FIBA Europe (evrópska körfuknattleikssambandið) verður í Reykjavík um næstu helgi. Er þetta í fyrsta sinn sem stjórn FIBA Europe kemur saman til fundar á Íslandi en fundurinn verður á Grand hóteli. Hannes S. Jónsson formaður KKÍ er í stjórn FIBA Europe.
Stjórnarfundir eru yfirleitt í höfuðstöðvum FIBA Europe í Munchen en að þessu sinni verður fundað á Íslandi.
Ásamt því að halda hefðbundinn stjórnarfund mun stjórnarfólk skoða landið og heimsækja forseta Íslands Guðna Th. Jóhannesson.
Nokkrir þekktir fyrrverandi leikmenn sitja í stjórn FIBA Europe og er þeirra þekktastur án efa Andrei Kirilenko en hann er forseti rússneska sambandsins og Jorge Garbajosa sem er forseti spænska sambandsins. Ásamt stjórnar- og starfsfólki FIBA Europe kemur til landsins Patrick Baumann framkvæmdastjóri FIBA og stjórnarmaður í alþjóðlegu Ólympíuhreyfingunni.