7 mar. 2018
Á morgun, fimmtudaginn 8. mars, fer fram lokaumferðin í Domino’s deild karla og þá ræðst hvaða lið verður krýnt deildarmeistari karla tímabilið 2017-2018. Allir sex leikir kvöldsins fara fram á sama tíma kl. 19:15.
 
Tvö lið eiga kost á að verða deildarmeistari í ár, en það eru lið Hauka og ÍR. 
 
· Haukar eiga heimaleik gegn Val. Ef Haukar sigra verða þeir deildarmeistarar óháð öðrum úrslitum.
· ÍR eiga útileik gegn Keflavík. ÍR þarf að ná í sigur í sínum leik til að jafna Hauka að stigum og treysta á að Haukar tapi og á sama tíma að Tindastóll vinni sinn leik til ÍR verði deildarmeistari. ÍR á eingöngu möguleika á að verða deildarmeistari með því að liðin þrjú sem um ræðir séu jöfn og staða þeirra reiknast innbyrðis.
 
Fulltrúar KKÍ verða því til taks á báðum stöðum með verðlaunagripi og það skýrist í leikslok annað kvöld hvort liðið hampar titilinum.
 
Hvorki Haukar né ÍR hafa orðið deildarmeistarar í sögunni með núverandi fyrirkomulagi Úrvalsdeildarinnar eða síðan 8-liða úrslitakeppnin var tekið upp í árið 1995. Því er ljóst að blað verður brotið í sögu KKÍ og félagsins sem verður deildarmeistari á núverandi tímabili annað kvöld.
 
Úrslitakeppni karla 2018
Á sama tíma ræðst endanlega röð liða í deildinni og hvaða lið munu þá mætast í 8-liða úrslitunum í ár. Lið í sætum 1-4 eiga heimavallarréttinn og mætir efsta lið deildarinna liðinu í 8. sæti og sæti 2. fær liðið í 7. sæti og svo koll af kolli. Undanúrslitin í ár hefjast fimmtudaginn 15. mars og föstudaginn 16. mars.
 
Í undanúrslitum raðast liðin svo aftur upp, efsta liðið úr 8-liða úrslitunum sem kemst áfram fær alltaf neðsta liðið sem kemst áfram. Bæði í 8-liða úrslitunum og undanúrslitunum þarf að vinna þrjá leiki til að fara áfram í úrslitin þar sem aftur þarf að vinna þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari Domino's deildar karla 2018.
 
#korfubolti