22 feb. 2018Á skrifstofu KKÍ fannst nýlega leikskrá frá leik Íslands og Finnlands hér á landi frá árinu 2006. Þá mættust Ísland og Finnland í Laugardalshöllinni í undankeppni þess sem þá hét B-deild Evrópukeppninnar. Með Íslandi og Finnlandi þá voru Georgía, Lúxemborg og Austurríki einnig með okkur í riðli.

Margt er athyglisvert við leikmannahópa liðanna en hópi gestana þá var Shawn Huff meðal leikmanna líkt og á morgun og þjálfari liðsins er einnig í dag Henrik Dettmann. Petteri Koponen, leikmaður Barcelona, væri að öllu jöfnu með Finnum einnig en fékk ekki leyfi frá félagsliði sínu að þessu sinni.

Þá voru með liðinu einnig hinir frábæru Teemu Rannikko og fyrrum NBA-leikmaðurin Hanno Mottola.

Hjá íslenska liðinu þá eru fjórir leikmenn ennþá í íslenska liðinu á morgun. Það eru þeir félagar Jakob Örn Sigurðarson, Jón Arnór Stefánsson, Hlynur Bæringsson og Logi Gunnarsson.

Nú er að sjá hversu margir verða mögulega með íslenska liðinu sem leikur á morgun að tólf árum liðnum gegn Finnum árið 2030 í Laugardalshöll! 

#korfubolti