15 feb. 2018Íslenska kvennalandsliðið lék gegn Svartfjallalandi í síðari leik sínum í þessum landsliðsglugga í gær ytra. Þetta var annar útileikur liðsins en liðið lék gegn Bosníu í Sarajevo á laugardaginn síðastliðin. Liðið ferðast svo heim í dag til Íslands.
Leikurinn í gærkvöldi var jafn til að byrja með og var Ísland yfir eftir fyrsta leikhluta 12:14. Áfram voru leikar jafnir í fyrri hálfleik þó heimastúlkur hafi unnið leikhlutann með sex stigum og voru því 35:31 yfir í hléinu.
Þá hrundi því miður leikur íslenska liðsins því liðið skoraði aðeins þrjú stig í þriðja leikhluta gegn 19 stigum heimastúlkna og aftur þrjú stig í fjórða leikhluta gegn 15 stigum Svartfjallalands og því úrslitin ráðin.
Helena Sverrisdóttir var lang atkvæðamest með 22 stig og 9 fráköst. Elín Sóley Hrafnkelsdóttir var næst stigahæst með 8 stig, en aðrir leikmenn voru samtals því aðeins með 7 stig sín á milli.
Nú eru tveir heimaleikir eftir í þessari undankeppni í nóvember gegn Slóvakíu og Bosníu og því góður tími til að fara yfir málin og styrkja það sem betur má fara í leik liðsins.
Staðan í A-riðlinum okkar er eftirfarandi:
1. Slóvakía 3/1
2. Svartfjallaland 3/1
3. Bosnía 2/2
4. Ísland 0/4
#korfubolti