11 feb. 2018

Íslenska landslið kvenna lék í gærkvöld gegn Bosníu í Sarajveo í undankeppni EM 2019. Þetta var þriðji leikur liðsins í keppninni en áður hafði liðið leikið heima gegn Svartfjallalandi og ytra gegn Slóvakíu í nóvember. 

 

Byrjunarlið Íslands var skipað þeim Hildi Björgu, Helenu, Berglindi, Söndru Lind og Þóru Kristínu.

 

Leikurinn fór fjörlega af stað og skiptust liðin á að leiða út fyrsta leikluta. Bosnía skoraði síðustu stig leikhlutans og staðan var 22:22 að honum loknum. Í öðrum leikhluta gekk illa að skora framan af fyrstu fimm til sex mínúturnar en íslenska liðið kom til baka og lagaði stöðuna fyrir hálfleik en þar hafði Bosnía fjögurra stiga forskot eftir að hafa unnið leikhlutann 18:14.

 

Í þriðja leikhluta eftir hálfleikinn urðu svo kaflaskil og þar lögðu heimastúlkur grunninn að sigri sínum með því að vinna leikhlutan 32:14 og komu sér í þægilega stöðu fyrir lokaleikhlutann. Bosnía hitti vel úr sínum skotum og fengu ítrekuð auðveld hraðaupphlaupsstig á meðan okkar stúlkum gekk illa að finna körfuna hinu megin. 

 

Lokatölur í gær 97:67 og Ísland því enn án stiga í keppninni eftir þrjá tapleiki.

 

Stigahæst í liði Íslands í gær var Helena Sverrisdóttir sem lék mjög vel og skoraði 32 stig og nýtti 15 af 16 vítum sínum og tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Hildur Björg Kjartansdóttir var næst stigahæst með 16 stig og 8 fráköst.

 

Liðið ferðast til Svartfjallalands í dag og kemur sér fyrir þar en framundan er seinni leikurinn í þessum landsliðsglugga, en þá verður leikið við heimastúlkur í Podgorica, á miðvikudaginn kemur kl. 18:00 að íslenskum tíma og er útlit fyrir að leikurinn verði sýndur beint á RÚV2.

#korfubolti