30 nóv. 2017
Í kvöld dæmir Davíð Tómas Tómasson sinn fyrsta leik sem FIBA dómari. Mun hann dæma leik Umeå Udominate á móti MBA Moscow í EuroCup kvenna. Davíð mun dæma með Karolinu Andersson frá Finnlandi sem er aðaldómari leiksins og Gatis Salins frá Lettlandi. Eftirlitsmaður leiksins er Pekka Saros frá Finnlandi.
Við óskum Davíð Tómasi til hamingju með sinn fyrsta leik og óskum honum velfarnaðar í komandi verkefnum.
Tveir nýjir FIBA dómarar:
Síðasta vetur voru tveir Íslendingar tilnefndir sem FIBA dómarar af hálfu KKÍ. Það voru þeir Davíð Tómas Tómasson og Jóhannes Páll Friðriksson. Þeir stóðust báðir dómaranámskeið og dómarapróf á vegum FIBA í kjölfarið og eru nú komnir með alþjóðleg dómararéttindi.
Aldrei áður hefur Ísland átt jafn marga FIBA dómara og nú. En auk Davíðs Tómasar og Jóhannesar Páls sem nú bættust við eru þeir Sigmundur Már Herbertssson, Leifur S. Garðarsson og Aðalsteinn Hjartarsson virkir FIBA dómarar fyrir Ísland.