14 ágú. 2017
Íslensku strákarnir í U16 gáfu frábæru liði Grikkja heldur betur leik í dag á Evrópumótinu sem fram fer þessa dagana í Sofia í Búlgaríu. Ísland tók frumkvæðið snemma leiks og leiddu strákarnir í hálfleik 43-37. Grikkir komu hins vegar sterkir út í þriðja leikhlutann og nýttu óspart hæðarmun liðanna, en meðalhæð Grikkneska hópsins á mótinu er tæpum 10 sentimetrum hærri en þess íslenska. Íslensku strákarnir neituðu hins vegar að gefast upp og minnkuðu muninn í 70-71 þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Nær komust strákarnir ekki og niðurstaðan 76-85 tap í hörku leik.
Strákarnir börðust frábærlega allan leikinn, en snemma varð ljóst að villuvandræði Íslands yrðu nokkur. Á endanum missti liðið 3 leikmenn útaf með 5 villur á meðan að Grikkirnir fengu færri villur sem dreifðust betur. Tölfræði leiksins má sjá hér og upptöku af leiknum er að finna á YouTube síðu FIBA.
Staðan í riðlinum:
Lið | Leikir | Sigrar | Töp |
Grikkland | 4 | 4 | 0 |
Belgía | 4 | 3 | 1 |
Ísland | 4 | 2 | 2 |
Hvíta Rússland | 4 | 2 | 2 |
Sviss | 4 | 1 | 3 |
Rúmenía | 4 | 0 | 4 |
Íslenska liðið á þrátt fyrir tap í síðustu tveimur leikjum enn möguleika á að enda í öðru sæti riðilsins og komast þar með í 8 liða úrslit. Ísland mætir Belgíu á morgun kl 10:45 á íslenskum tíma og sigri Ísland og Hvíta Rússland leiki sína á morgun enda Ísland, Hvíta Rússland og Belgía jöfn að stigum. Þá munu nnbyrgðis viðureignir liðanna ráða sætaniðurröðun. Belgía sigraði Hvíta Rússland fyrr í dag með 30 stiga mun og því ljóst að Ísland þarf að sigra Belga með að lágmarki 16 stiga mun til að ná öðru sæti riðilsins.
Leikurinn verður í beinni útsendingu hér kl 10:45.