10 ágú. 2017

Íslensku stelpurnar mættu heldur betur tilbúnar til leiks gegn Albaníu í Dublin í dag. Þessi leikur var úrslitaleikur um það hvort liðið myndi spila um sæti 9-16 en liðið sem tapaði spilar um sæti 17-24. Skemmst er frá því að segja að stelpurnar okkar gjörsigruðu lið Albaníu með 83 stiga mun.

Stelpurnar okkar tóku strax öll völd á vellinum og komust í 24-0 eftir rúmar 6 mínútur af leiknum en staðan eftir 1. leikhluta var 33-4 fyrir Ísland.  Í 2. leikhluta slökuðu íslensku stelpurnar aðeins á og í hálfleik höfðu þær 24 stiga forskot 46-22.

Í seinni hálfleik héldu stelpurnar upptenkum hætti frá því í 1. leikhluta og lokatölur í dag urðu 117-34 fyrir Íslandi.

Stelpurnar léku frábæran körfubolta í dag og vonandi er þetta það sem koma skal í næstu leikjum en það eru enn 3 leikir eftir í mótinu. Allar stelpurnar fengu að koma inná í dag og stóðu sig mjög vel. Þóranna Kika var stigahæst íslenska liðsins með 33 stig og 8 fráköst, næstar komu Dagbjört með 21 stig og Birna með 20 stig. 

Fyrir áhugasama er hægt að nálgast nánari tölfræði og upptöku af leiknum á vef FIBA.

Á morgun er frídagur sem verður nýttur vel í að undirbúa næsta leik. Sá leikur er á föstudaginn við Búlgaríu, sem varð í 3. sæti í A rilði og hefst leikurinn í National Indoor Training Centre kl. 12:45 að íslenskum tíma.