19 júl. 2017Strákarnir okkar í U20 gerður sér lítið fyrir og unnu stórsigur á Svíum 73:39 í 16-liða úrslitum Evrópukeppninnar sem fram fer á Krít á Grikklandi. Þar með er ljóst að liðið getur ekki hafnað neðar en í 8. sæti mótsins og er þar öruggt að Ísland mun eiga lið að ári meðal 16 bestu þjóða Evrópu í körfuknattleik karla í U20.

Sannarlega frábært hjá strákunum okkar sem töpuðu tveim fyrstu leikjum sínum í riðlinum og misstu byrjunarliðsmanninn Kára Jónsson í meiðsli fyrir lokaleik riðilsins gegn Svartfjallalandi.  Þar kom liðsheildin fram og liðið vann þann leik og hafa nú unnið fyrsta leikinn í úrslitunum á sannfærandi hátt. 

Framundan er leikur gegn kunnulegum mótherja, liði Ísraels, sem tók þátt í æfingamótinu hér á Íslandi um miðjan júní líkt og Svíar og Finnar. Ísrael vann Ítali nú rétt í þessu og því næstu mótherjar okkar stráka. 

Þar er góður möguleiki með góðum leik á sigri og þar með sæti í undanúrslitunum. 

Leikurinn verður kl. 11:30 á morgun fimmtudag og verður í beinni á Youtube-rás FIBA.

ÁFRAM ÍSLAND!

#korfubolti