18 júl. 2017
Á sunnudaginn var spilað um sæti á u20 kvk B-deild EM og kepptu íslensku stelpurnar um 11. sæti gegn Írum.
Írarnir byrjuðu leikinn mun betur en þær íslensku og var staðan eftir 1. leikhluta 21-14. En 2. leikhluti var eign íslensku stelpnanna sem settu í lás í vörninni og héldu Írum í 8 stigum í leikhlutanum á sama tíma og skotin fóru loksins að detta og unnu þær leikhlutann 8-25. Seinni hálfleikur var jafn og skemmtilegur þar sem Írar börðust af miklum krafti við að komast inn í leikinn en íslensku stelpurnar voru ekki á því að gefa eftir og lönduðu langþráðum sigri, 54-64.
Atkvæðamestar í liði Íslands voru Thelma Dís Ágústsdóttir með 14 stig, 9 fráköst og 3 stoðsendingar, Þóra Kristín Jónsdóttir með 12 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar og Linda Róbertsdóttir með 8 stig.
Sigur í leiknum þýddi að stelpurnar lentu í 11. sæti. Margar af þeim stelpum er voru í liðinu eiga möguleika á því að koma aftur að ári þar sem þær eru á yngra ári og ljóst að þetta var dýrmæt reynsla fyrir þær. Stærsti munurinn á íslenska liðinu og toppliðunum sem spilað var gegn var annars vegar líkamlegt atgervi leikmanna og hins vegar skotnýting. Íslensku leikmennirnir voru ekki eins líkamlega sterkir og leikmenn bestu liðana og skotnýtingin var alls ekki nógu góð til að geta blandað okkur í toppbaráttuna. En vonandi nýta stelpurnar þessa reynslu til að byggja sig upp fyrir komandi átök í öðrum landsliðsverkefnum.
Tölfræði úr leik Íslands og Írlands má finna hér.