12 júl. 2017
Í dag spilaði u20 ára lið kvenna sinn fjórða leik í riðlakeppni B-deildar Evrópumótsins og var sá leikur gegn Tékklandi. Mikið jafnræði var með liðunum og sjá má miklar framfarir milli leikja hjá stelpunum. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 13-17 fyrir Tékklandi og eina ástæðan fyrir því að Tékkland var yfir var sú að Tékkland náði 11 sóknarfráköstum í 1. leikhluta og fengu því mun fleiri tækifæri til að skora en okkar stelpur.
Í öðru leikhluta náði Tékkland að auka forskotið og fóru inn í hálfleik með 9 stiga forskot. Varnarleikurinn var áfram góður og í seinni hálfleik stigu stelpurnar betur út en þrátt fyrir hetjulega baráttu gekk okkur illa að skora. Stór ástæða fyrir því hversu illa gekk að skora voru tapaðir boltar en íslenska liðið tók mun færri skot en Tékkland í leiknum. Á seinustu mínútum leiksins hófst mikill eltingaleikur og endaði leikurinn með 11 stiga tapi gegn Tékklandi en þær tölur gefa ekki rétta mynd af leiknum þar sem aðeins var 5 stiga munur þegar stutt var til leiksloka.
Stigahæst í dag var Þóra Kristín Jónsdóttir með 8 stig, Emelía Ósk Gunnarsdóttir með 7 stig, 3 fráköst og 4 stoðsendingar og Björk Gunnarsdóttir með 7 stig.
Tölfræði leiksins má finna hér.
Á morgun er seinasti leikurinn í riðlakeppninni og er hann gegn Þýskalandi klukkan 13:00 að íslenskum tíma. Hægt er að sjá beina útsendingu frá leiknum hér.