1 jún. 2017

Í dag léku bæði liðin okkar sitthvorn leikinn og fóru leikar þannig að strákarnir okkar töpuðu í dag fyrir Andorra í sínum þriðja leik á Smáþjóðaleikunum 2017 á meðan stelpurnar unnu sinn leik.

Hjá strákunum var leikurinn jafn og spennandi frá fyrstu mínútu. Okkar strákar höfðu nokkura stiga forskot þegar skammt var eftir en Andorra náði að jafna og eftir jafnar lokamínútur féll ekkert með okkar liði og því svekkjandi tap niðurstaðan. Okkar strákar læra af þessu og þetta fer í reynslubankann en þeir eiga svo leik á morgun gegn sterku liði Lúxemborg.

Stigahæstir í dag voru þeir Jón Axel Guðmundsson með 24 stig og 6 fráköst, Tryggvi Snær Hlinason með 12 stig og 10 fráköst.

Stelpurnar léku næsta leik á eftir og mættu Kýpur í sínum öðrum leik. Eftir jafnan fyrrihluta leiksins og fram í lok þriðja var jafnræði með liðunum og skiptust þau á forystu. Okkar stelpur tóku loks yfir í lokaleikhlutanum og unnu góðan sigur að lokum. Þær mæta liði Lúxemborg á morgun í sínum lokaleik og í leik um silfrið. Malta hefur nú þegar unnið alla sína leiki og þar með gullið á leikunum.

Í keppni karla eru Kýpverjar búnir að tryggja sér sigur eftir að hafa unnið sína fyrstu þrjá leiki gegn Íslandi, Lúxemborg og Svartfjallalandi í dag í hörkuspennandi leik.

Úrslit dagsins í keppni í körfuknattleik:

Kýpur 81:71 Svartfjallaland · Karla
Malta 52:50 Lúxemborg · Kvenna
Andorra 83:81 Ísland · Karla
Kýpur 47:63 Ísland · Kvenna
Lúxemborg 99:44San Marínó · Karla

Á morgun:
Landslið kvenna mætir Lúxemborg kl. 10:30 að íslenskum tíma.
Landslið karla mætir einnig Lúxemborg kl. 15:30 að íslenskum tíma.

Lifandi tölfræði og útsendingar: 
Dagskrá og úrslit og liðsskipan liða karla og kvenna er að finna á slóðinni www.sanmarino2017.sm/en/live-score/

Lifandi tölfræði frá öllum leikjum er að finna á www.statbasket.it

Ljósmyndir frá leikjunum koma inn í kvöld á facebook-síðu KKÍ en þar eru nú þegar myndir frá öllum hinum leikjum mótsins sem búnir eru.


#korfubolti