1 jún. 2017
Kristinn Óskarsson var á dögunum í Zagreb í Króatíu þar sem hann endurnýjaði réttindi sín sem dómaraleiðbeinandi.
Kristinn hefur verið „FIBA Referees Instructor“ síðan 2011, en sem slíkur þarf hann að sækja fræðslu árlega til FIBA..
FIBA hefur kynnt menntunaráætlun sína fyrir dómaraleiðbeinendur og geta menn öðlast þrjár gráður í faginu (level 1-3). Námsefnið er staðlað með prófum og er kennt eins í öllum heimsálfum. Kristinn var að ljúka seinni hluta fyrsta stigs og er í fyrsta hópnum sem útskrifast formlega með level 1 gráðu ásam 45 öðrum frá flestum löndum Evrópu.
Kristinn sagði að námskeiðið hafi verið gott og fróðlegt auk þess sem gott sé að vera í góðum tengslum við kollega sem hafa mikinn metnað fyrir því að efla dómgæslu.
Þá var einnig verið að fara í nýja hluti eins og breytingu á skrefareglunni, breytingu á túlkun óíþróttamannslegrar villu og að leikmaður sem fær tæknivillu og óíþróttamannslega villu í leik fær brottrekstur.
Næst á dagskrá hjá Kristni er að starfa sem dómaraleiðbeinandi á NM unglinga í Finnlandi, á EM U16 kvenna A-deild í Frakklandi og á undirbúningsmóti í Noregi í haust. Kristinn segist einnig stefna á að sækjast eftir annarri gráðu hjá FIBA þegar það verður í boði.