7 maí 2017
Núna kl. 12:00 að íslenskum tíma er komið að stórri stund í körfuboltanum þegar karlalandsliðið okkar verður í fyrsta sinn í pottinum þegar dregið verður í undankeppni HM 2019 sem haldið verður í Kína.
Þetta er í fyrsta sinn sem undankeppni með þessu sniði er haldin og í nýju keppnisfyrirkomulagi FIBA.
Ísland verður í riðli með þremur öðrum Evrópuþjóðum. Takist Íslandi að verða meðal þriggja efstu að loknum sex leikjum (leikið er heima og að heiman í nóv, feb og júní) fer liðið í aðra umferð undankeppninnar.
Drátturinn hefst eins og áður segir kl. 12:00 á hádegi að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu á facebook-síðu KKÍ sem og á facebook, twitter og YouTube-síðum FIBA. Myllumerkið #FIBAWC er notað í tengslum við keppnina
Meðal þeirra sem munu draga í riðla eru Scottie Pippen fyrrum NBA leikmaður, Andrei Kirilenko fyrrum NBA leikmaðurn og núverandi formaður rússneska körfuknattleikssambandsins og stjórnarmaður í FIBA Europe og Yi Jian Lian annar af stærstu körfuboltastjörnum Kína.
Hannes S. Jónsson formaður KKÍ og Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir varaformaður KKÍ verða viðstödd dráttinn í Guangzhou.
Hér er að finna útskýringarmyndband hvernig fyrirkomulagið verður þegar dregið verður í riðla fyrir Evropu en reiknað er með að sá dráttur verði kl.12.25 og þá hverjir geta hugsanlega verið mótherjar okkar.