22 apr. 2017
Hannes S. Jónsson, hélt ræðu rétt í þessu á upphafi Körfuknattleiksþingsins sem fram fer í dag í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal.
Þingforseti, fulltrúi ÍSÍ og kæru þingfulltrúar.
Þrátt fyrir sívaxandi umfang á starfsemi sambandsins á undanförnum árum kem ég hér enn einu sinni og fullyrði að nú sé að baki enn eitt starfsárið sem telst til hins annasamasta frá upphafi og bendir allt til að það næsta verði enn annasamara.
Þetta sýnir að það hefur mjög mikið breyst í umhverfi og umfangi okkar hreyfingar á síðustu áratugum og á undanförnum 10 árum hefur breytingin verið hröð frá ári til árs. Allar þessar breytingar koma ekki af sjálfum sér, allt hefur þetta verið unnið með það markmið að leiðarljósi að gera körfuboltann að einni vinsælustu íþróttagrein landsins sem við erum orðin í dag. Já við getum svo sannarlega sagt að vinsældir körfuboltans hafa aldrei verið meiri og umfjöllunin eftir því. Góðri velgengni fylgja einnig auknar kröfur og umfangið verður meira og meira.
Það eru margir samhangandi þættir sem hafa komið körfuboltanum á þann stað sem við erum á í dag aukinn árangur landsliðanna okkar, aukin umfjöllun, fleiri iðkendur, betri þjálfun, betri dómgæsla en fyrst og fremst er það auðurinn í því fólki sem hefur valist til að sinna körfuboltanum og vinna að framgangi hans hringinn í kringum landið. Þetta fólk er fullt af eldmóði og áhuga fyrir því að auka veg körfuboltans á sínu svæði.
Afreks- og landsliðsstarfið er einn af þeim þáttum sem hefur vaxið og vaxið ár frá ári, góðri velgengni þar fylgir mikil vinna og auknar kröfur frá FIBA og FIBA Europe. Fyrir nokkrum árum hefði fáum okkar dottið í hug hversu góð landsliðin okkar væru orðin árið 2017. Við erum á leiðinni á EuroBasket annað mótið í röð með karlaliðið okkar, kvennaliðið okkar hefur aldrei verið ofar á styrleikalista FIBA, U20 ára karlaliðið okkar er á leið á sitt fyrsta lokamót í sumar, U18 stelpurnar okkar enduðu í 4. sæti B-deildarinnar í fyrra sem er besti árangur stúlknalandsliða okkar í sögunni.
Vegna þessa góða árangurs á síðustu árum er staðan nú þannig að „litla“ ÍSLAND er ekki lengur gjaldgengt í það sem kallast C-deildir á vegum FIBA Europe hvorki í A-liðunum né yngri liðunum. C-deildirnar eru hugsaðar fyrir „smáþjóðir“ þannig að í körfuboltalegu samhengi er Ísland engin „smáþjóð“ lengur.
Ágætu félagar þið þekkið vel og vitið hversu góðum árangri við höfum náð og því ætla ég ekki að fara að fara yfir einstaka úrslit allra landsliða okkar hérna og bendi ég ykkur á að öll úrslit má sjá í ársskýrslunni og yfirlit yfir allt landsliðsfólkið okkar.
Aukinn árangur og meira afreksstarf kallar á mun meiri útgjöld og þrátt fyrir að fleiri og stærri samstarfsaðilar gangi til liðs við okkar eru fjárhagsörðugleikar miklir vegna afreksstarfsins. Það sést á þeim reikningum sem lagðir eru fram hér á þinginu hversu kostnaðarsöm síðustu tvö ár hafa verið okkur og þrátt fyrir miklar áhyggjur þá höfum við í stjórn og starfsmenn alls ekki viljað tala neikvætt útá við um þessa erfiðu stöðu. Það hafa verið margar andvökunætur vegna þessa en allt hefur þetta gengið hjá okkur þar sem allir aðilar hafa sýnt okkur mikinn skilning og þolinmæði og fyrir það þakka ég af heilum hug.
Þrátt fyrir þessa erfiðu stöðu fjárhagslega höfum við í stjórninni aldrei látið okkur detta í hug að hækka álögur á félögin. Sömu mótagjöld hafa verið síðustu 10 ár, fræðslusjóður felldur niður í þeirri að mynd að félögin séu að leggja honum til fjármagn. Aðstoð til félaganna aldrei verið meiri í formi bolta og annars varnings en um 4.000 boltar hafa verið gefnir til félaganna á síðustu tveim árum með aðstoð Domino´s og FIBA. KKÍ hefur aðstoðað útbreiðslu til félaganna með því að mæta með landsliðsfólk á æfingar, séð félögunum fyrir fyrirlesara um yngri flokka starfið, auglýst æfingatöflur félaganna og fleira til.
Það eru jákvæð teikn á lofti fjárhagslega með hækkun framlaga ríkisins til afrekssjóðs og meiri framlaga frá FIBA til okkar. Tímamótasamngur var gerður síðastliðið sumar af hálfu ÍSÍ við þáverandi ríkisstjórn um stóraukin stuðning ríkisvaldsins til afrekssjóðs.
Forysta og starfsfólk ÍSÍ hefur unnið þetta mál mjög vel og sérstaklega vinnuna sem hefur verið nú í vetur. Með þessu stóraukna framlagi þarf að endurskoða reglur afrekssjóðs og það hefur ÍSÍ gert mjög vel og í góðri samvinnu við íþróttahreyfinguna undafarna mánuði. Kærar þakkir til stjórnar og starfsfólks ÍSÍ fyrir að ná samningum um þetta stóraukna framlag og alla flottu vinnuna í samráði við íþróttahreyfinguna undanfarna mánuði.
Þrátt fyrir þetta stóraukna framlag í afrekssjóð þurfum við enn að treysta á stuðning fyrirtækjanna í landinu til að aðstoða við að fjármagna afrekssstarfið og hvet ég fleiri fyrirtæki að koma til samstarfs við okkur hjá KKÍ þannig að afreks- og landsliðssarfið okkar getið haldið áfram að vaxa og dafna.
Eitt af stóru verkefnum síðustu ára hefur verið þjálfaramenntunin. Við höfum náð að koma upp kerfi sem eru mikill sómi að. Nú eru námskeið í boði reglulega allt árið fyrir þjálfara og í næsta mánuði verður einmitt Svetislav Pešić með námskeið hérna hjá okkur en hann er eitt allra stærsta nafnið í þjálfaraheiminum. Í mörg ár var talað um að efla þjálfaramenntun og þrátt fyrir nokkrar tilraunin tókst það ekki. En núna er þessi málaflokkur á góðum stað og ljóst að á næstu árum mun menntuðum þjálfurum fjölga og þar af leiðandi mun allt starfið okkar eflast enn meira eftir því sem hæfum þjálfurum fjölgar. Sannarlega spennandi tímar framundan varðandi eflingu þjálfaramenntunar.
Stór þáttur í uppgangi körfuboltans á síðustu árum er umfjöllum fjölmiðla sem hefur aukist til muna ár frá ári. Þegar samningar voru lausir vorið 2015 við Stöð 2 Sport ákvað stjórn KKÍ að ganga ekki til samninga aftur nema að ljóst yrði að kvennaboltinn fengi beinar útsendingar og um leið meiri umfjöllun. Samningar tókust um þetta og var um tímamótasamning að ræða þar sem í fyrsta sinn í sögu íþrótta á Íslandi var samið um beina útsendingu í sjónvarpi frá hverri einustu umferð í boltagrein hjá konum. Einnig var sú nýbreytni í samningnum að vikulegur þáttur um körfuboltann á að vera á dagskrá Stöðvar 2 Sport sem við þekkjum núna sem Domino´s Körfuboltakvöld og hefur náð miklum vinsældum. Í vetur hafa yfir 80 leikir verið í beinni útsendingu og um 40 þættir hafa verið sýndir. Stjórnendum og starfsfólki Stöðvar 2 Sport þakka ég fyrir frábæra vinnu og samstarf en til að svona lagað gangi upp þarf samstarfið að ganga hnökralaust. Garðari Erni Arnarsyni og Kjartani Atla Kjartanssyni leyfi ég mér að þakka sérstaklega hér í þessari ræðu.
Síðastliðið sumar var svo endurnýjaður samningur við RÚV um bikarkeppnina og landsleikina en meðal annars kom nýtt inn í þann samning að RÚV sýnir beint frá tveim úrslitaleikjum yngri flokka og var það í fyrsta sinn sem RÚV skuldbindur sig til að sýna beint frá úrslitum yngri flokka í íþróttum.
Samstarf við alla fjölmiðla er nauðsynlegt og er mikil áhersla frá skrifstofu KKÍ að eiga í góðu samstarfi við fjölmiðlafólk svo hægt sé að auka enn frekar umfjöllun um okkar frábæru íþrótt. Starfsmenn allra miðla hafa greiðan aðgang að starfsfólki KKÍ sem er afar mikilvægt. Ég þakka starfsmönnum allra fjölmiðla fyrir gott samstarf og umfjallanir um körfuboltann.
Mig langar að aðeins að fjalla hér í ræðu minni um stöðu kvennakörfunnar á Íslandi sem mér finnst stundum töluð niður af okkur sjálfum.
Í ljósi nýs samnings við Stöð 2 Sport um sýningu á leikum frá Domino´s deild kvenna hefur umfjöllun og sýnileiki kvennaboltans aukist mjög mjög mikið. Það er mjög erfitt að finna álíka umfjöllun um efstu deild kvennna í heiminum og er hér á Íslandi. Það er ljóst að við erum í fararbroddi í Evrópu og væntalega heiminum þegar kemur að sjónvarpstíma fyrir kvennakörfuna. Undirritaður hefur meðal annars verið beðin um að halda fyrirlestra fyrir starfsfólk og aðildarlönd FIBA um hvernig við hér á Íslandi höfum á skömmum tíma lyft upp umfjöllun um efstu deild kvenna og landsliðin okkar. Við erum öfunduð af öðrum löndum fyrir sterka stöðu kvenna hér á landi. Við getum og eigum að vera stolt yfir því hversu sterkur kvennakörfuboltinn er orðinn í sýnileika og umfjöllun. Það er ekki bara sýnileikinn sem hefur aukist á síðustu árum hjá konunum, það hafa aldrei fleiri stelpur verið skráðir iðkendur, það hafa aldrei fleiri aðildarfélög sent lið til keppni á vegum KKÍ, kvennalandsliðið okkar hefur aldrei verið ofar á styrkleikalista FIBA, yngri landslið stúlkna aldrei verið á betri stað og svona get ég haldið áfram en þetta sýnir að staða kvennakörfunnar hefur styrkst mikið og við þurfum að halda áfram að byggja ofan á það öll saman. Það hefur því miður gerst að við sjálf gleymum því hversu öflugt starfið okkar er og förum stundum í að tala það niður. Það megum við aldrei gera, en að sjálfsögðu á sama tíma eigum við alltaf að hafa metnað og vilja til að gera betur bæði hjá konum og körlum.
Eins og kemur fram hér í ræðu minni og ársskýrslunni þá hefur staða körfboltans á Íslandi aldrei verið eins sterk og hún er í dag. Við þurfum öll að vera meðvituð um þetta og á sama tíma einnig að vera meðvituð um að við getum gert betur á öllu sviðum. Við megum aldrei halda að einhverjum hápunkti sé náð, það er margt sem við eigum eftir að gera og það þurfum við áfram að gera saman eins og við höfum gert á undanförnum árum. Körfubolti er hópíþrótt, ekki bara á leikvellinum heldur einnig utan hans. Þess vegna þurfum við sem förum fyrir sambandinu og félögunum að vera ávallt meðvituð um að gera betur, við megum aldrei gefast upp.
Kæru þingfulltrúar ég þakka ykkur fyrir öflugt starf á undanförnum árum. Þið ásamt ykkar öfluga samstarfsfólki í ykkar félögum vinnið ómælda sjálfboðavinnu sem því miður of sjaldan er þakkað fyrir, ég þakka ykkur af heilum hug fyrir ykkar frábæra starf.
Ég vil nota tækifærið hér í ræðu minni að þakka samstarfsaðilum okkar, stjórn og starfsfólki ÍSÍ, öðrum sérsamböndum, íþrótta- og héraðsbandalögum fyrir gott samstarf.
Stjórn, nefndum og starfsfólki okkar þakka ég fyrir frábært samstarf og óeigingjarnt starf fyrir KKÍ og körfuboltann í landinu. Það er körfuboltanum mikil gæfa að hafa svona öflugt fólk sem sinnir störfum sínum af öllum þessum mikla áhuga og alltaf með bros á vör með hagsmuni heildar körfuboltahreyfingarinnar að leiðarljósi. Sérstakar þakkir færi ég Guðjóni Má Þorsteinssyni og Bryndísi Gunnlaugsdóttur fyrir þeirra góða starf en þau hafa ákveðið að hætta í stjórn sambandsins.
Að lokum vonast ég eftir starfsömu þingi þar sem við höfum heildarhagsmuni körfuboltans að leiðarljósi.
Áfram körfubolti!
Hannes S. Jónsson,
Formaður KKÍ