13 feb. 2017
Bikarkeppni KKÍ, Maltbikarinn lauk nú um helgina. Maltbikarinn var haldinn með breyttu fyrirkomulagi þetta árið og voru undanúrslit meistaraflokkanna haldin í Laugardalshöll ásamt úrslitum í öllum flokkum. Það má því segja að um sannkallaða körfubolta hátíð hafi verið að ræða sem stóð frá miðvikudegi til sunnudags. Þetta fyrirkomulag þótti heppnast mjög vel í alla staði.
Það voru 13 félög víðsvegar að landinu sem áttu fulltrúa á þessari miklu körfuboltahátíð. Ég óska öllum félögum sem unnu bikarmeistaratitla til hamingju með góðan árangur. Sérstakar óskir fær íþróttafélagið Vestri sem er nýtt sameiginlegt félag fjögurra íþróttagreina á Ísafirði en bikarmeistaratitill sem félagið vann í 9. flokki drengja er fyrsti stóri titill félagsins.
Undirbúningur að svona stórum viðburði er töluverður og koma margir aðilar úr ýmsum áttum til að gera þennan viðburð að veruleika. Á Maltbikarhátíðini sjálfri eru svo ýmis verk sem þarf að sinna og voru um 100 sjálfboðaliðar að störfum í Laugardalshöll á þessari fimm daga hátið. Ég færi öllum þessum sjálfboðaliðum mínar bestu þakkir fyrir þeirra ómetanlega framlag.
Leikmönnum, þjálfurum, dómurum og fulltrúum félaganna sem að leikjunum komu færi ég góðar þakkir fyrir þeirra framlag og þáttöku í Höllinni.
Það voru 10-11.000 áhorfendur/stuðningsmenn sem mættu á alla leikina þrettán í Laugardalshöll og þakka ég þeim fyrir að mæta og styðja sín lið en þeir voru sér og félögum sínum til mkils sóma.
Í fyrsta sinn sögu bikarkeppni KKÍ var sýnt beint frá öllum leikjunum í undanúrslitum í sjónvarpi en RÚV sá um að sýna alla leiki meistaraflokkanna (undanúrslit og úrslit) og úrslitaleiki unglingaflokka karla og kvenna eða samtals 8 leikir, hinir fimm leikirnir sem voru spilaður voru sýndir á ruv.is
Allir þrettán leikir helgarinnar voru dæmdir í þriggja dómarakerfinu og fengu þannig yngri flokka leikmenn okkar margir hverjir í fyrsta sinn dómgæslu í því kerfi. Ánægulegt var að um helgina voru hér tveir aðilar frá FIBA Europe sem voru að vinna með okkar íslensku dómurum þeir Alan Richardson og Neil Wilkinson en Alan er yfir fræðslumálum dómara hjá FIBA Europe og Neil starfar með dómurum í England og vinnur mikið fyrir FIBA. Þeir lýstu yfir ánægju með störf sín hér og íslenskra dómara.
Þessi skemmtilega Maltbikarhátið var svo sannarlega góð auglýsing fyrir íslenskan körfubolta.
Fyrir hönd stjórnar og starfsmanna KKÍ færi ég öllum þeim sem komu að Maltbikarhátíðinni okkar innilegstu þakkir.
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ