17 jan. 2017
Neskaupstaður hefur lengi verið þekktur fyrir mikla og góða blakmenningu og er yngri flokka starf Þróttar í blakinu til fyrirmyndar ásamt því að meistaraflokkar félagsins eru í fremstu röð.
Fjölbreytni í íþróttalífi samfélaga er af hinu góða og hafa grunnskólanemendur bæjarins mætt vel á körfuboltanámskeið sem haldin hafa verið. Það fyrra í lok nóvember sl. og það síðara þann 15. janúar.
Fengu krakkarnir þjálfun í undirstöðuatriðum körfuboltans og lærðu nokkra leiki sem hægt er að leika á skólalóðinni, enda fínar körfur við grunnskólann í bænum.
Fyrir seinna námskeiðið barst rausnaleg gjöf frá Körfuknattleikssambandi Ísland sem gaf íþróttahúsinu í Neskaupstað nýja Molten minnibolta.
„Þetta flotta framtak KKÍ mun ekki draga úr áhuga yngri kynslóðarinnar í bænum. Áhugi unga fólksins og aðstæður í Neskaupstað gefa fulla ástæðu til þess að vona að blakið og karfan geti blómstrað saman í framtíðinni.“ sagði Ágúst Ingi Ágústsson sem er einn þeirra sem stendur fyrir körfuboltaæfingunum í Neskaupstað hjá Þrótti.