22 des. 2016

Ísland leikur í A-riðli á lokamóti EM, EuroBasket 2017, sem fram fer í Helsinki dagana 31. ágúst til 6. september næsta haust.

 

Liðið sem drógst í riðilinn úr 5. styrkleikaflokki er lið Póllands. Leikur Íslands og Póllands fer fram á öðrum leikdegi mótsins, laugardaginn 2. september.

 

Ísland hefur 14 sinnum mætt Póllandi, nú síðast sumarið 2016 á æfingamóti í Austurríki og þar á undan á æfingamóti í Póllandi fyrir EuroBasket 2015, en í bæði skiptin vann Pólland. Í heildina standa leikar 11:3 fyrir Pólland í sögunni (21% sigurhlutfall Íslands). 

 

Lið Pólverja hefur verið í sífeldum vexti á undanförnum árum og hafa tekið þátt í lokamóti EM í síðastliðin fimm skipti frá árinu 2007. Árið 2015 lentu þeir í 11. sæti. en þá léku þér í A-riðli mótsins í Frakklandi. Þar lentu þeir í 3. sæti riðilsins með þrjá sigra og tvö töp á eftir Frökkum og Ísrael, og töpuðu svo í 16-liða úrslitum fyrir verðandi evrópumeisturum Spánar. Í sumar tryggðu þeir sig inn á EM með því að lenda í 1. sæti síns riðils en þeir enduðu 5/1 í riðli með Eistlandi, Hvíta-Rússlandi og Portúgal.

 

Þekktasti leikmaður Pólverja er án efa Marcin Gortat, núverandi leikmaður Washington Wizards, en hann hefur leikið i deildinni undanfarin ár. Hann er stór og stæðilegur leikmaður og er 211 cm á hæð og lék með þeim á síðasta EuroBasket árið 2015. Ekki er ljóst hvort að hann sé hættur með landsliðinu, en tíminn mun leiða í ljóshvort hann mæti til Finnlands. Maciej Lampe er sá sem mun leisa hann af, en hann er reyndur leikmaður og hefur verið á mála hjá Barcelona áður, en leikur núna í ár í Kína. A.J. Slaughter hefur leikið með pólska liðinu á undanförnum árum og er meðal þeirra bestu leikmanna en hann leikur með vinaliði KR úr evrópukeppni félagsliða frá því hér um árið, Banvit í Tyrklandi. Þá var Mateusz Ponitka, leikmaður Pınar Karşıyaka í Tyrklandi, stigahæsti leikmaður þeirra að meðaltali á EuroBasket síðst. Meðal ungra og efnilegra leikmanna má nefna Przemyslaw Karnowski sem leikur með Gonzaga í NCAA-háskólaboltanum en aðrir leikmenn leika með sterkum liðum um alla Evrópu.

 

Þjálfari Póllands er hinn bandaríski Mike Taylor en hann var áður aðstoðarþjálfari Tékkneska landsliðsins á EM 2013. Hann hefur áður þjálfað lið í Þýskalandi og NBA D-League lið Boston Celtics, lið Maine Red Claws. Mike tók við liði Pólverja í lok árs 2013 og þeir tryggðu sér sæti eins og áður segir á EM 2015 undir hans stjórn.

 

Miðasala á EM fer fram á tix.is en nú þegar hafa rúmlega 1.100 íslendingar keypt sér miðapakka til Finnlands sem munu styðja við liðið og eru enn til miðar. KKÍ hvetur alla sem áhuga hafa á að fara til Helsinki að kaupa miða í tíma til að tryggja sér bestu sætin og vera á „íslendingasvæðinu“ á hverjum leik og til að kaupa miða á besta verðinu áður en það verður uppselt í haust.

 

Dagskrá EuroBasket · A-riðill í Helsinki

31. ágúst - Ísland-Grikkland

1. september - Frídagur í riðlinum

2. september - Pólland-Ísland + landsleikur í fótbolta: Finnland-Ísland í undankeppni HM

3. september - Frakkland-Ísland

4. september - Frídagur í riðlinum

5. september - Ísland-Slóvenía

6. september · Finnland-Ísland