4 des. 2016

Á dögunum útskrifuðst fyrstu löggiltu tölfræðingarnir á Íslandi eftir námskeið á vegum FIBA.

Fyrr á árinu gaf FIBA það út að frá og með árinu 2017 yrðu að vera löggiltir tölfræðingar á öllum leikjum á vegum FIBA. FIBA hefur því safnað saman hóp einstaklinga sem eru svokallaðir tölfræðikennarar á vegum FIBA og hafa þeir farið víða um Evrópu til að halda námskeið og prófa einstaklinga í hverju landi.

Slíkt námskeið var á Íslandi á dögunum en fyrir námskeiðið höfðu þeir sem mættu lesið og lært í fjarnámi sem FIBA býður uppá. Í lok námskeiðsins var svo tekið próf og FIBA hefur nú staðfest að þrír einstaklingar hafi staðist prófið og eru þeir því þeir einu sem mega taka tölfræði á FIBA leikjum sem fram fara á Íslandi.

Þessir þrír einstaklingar eru þeir Ásgeir Einarsson, Jón Svan Sverrisson og Rúnar Birgir Gíslason.

KKÍ óskar þeim til hamingju með gráðuna.