28 nóv. 2016
Dómaranefnd er nú að endurskoða dómaramenntunin og móta stefnu til framtíðar. Eitt af þeim verkefnum sem ákveðið hefur verið að ráðast í er að bjóða öllum leikmönnum 10. flokks að fá heimsókn frá úrvalsdeildardómara og fá námskeið í helstu reglum og dómaratækni. Markmiðið er að fræða leikmenn um reglur og dómarastarfið og hjálpa öllum að stíga sín fyrstu skref til að geta hjálpað til við dómgæslu í fjölliðamótum leikmanna á grunnskólaaldri. Heimsóknin tekur um 3 klst og er best að skipuleggja hana í tengslum við æfingatíma því á námskeiðinu er byrjað í kennslustofu/fyrirlestrarsal og seinni hlutinn fer svo fram í beinu framhaldi í íþróttasal þar sem 10. flokks leikmennirnir eru virkir þáttakendur í léttum íþróttafatnaði.
Fyrsta námskeiðið með þessu sniði var haldið hjá Breiðabliki í Smáranum í dögunum. Tuttugu og tveir leikmenn 10. flokks Breiðabliks, drengir og stúlkur, mættu á námskeiðið hjá þeim feðgum Kristni Óskarssyni og Ísak Erni. Námskeiðið fór fram á milli 16-19 og bauð Breiðablik upp á pizzu í stuttu hléi áður en haldið var í íþróttasalinn. Glatt var á hjalla og nemendurnir virkir og áhugasamir og verður að teljast að námskeiðið hafi hitt í mark.
KKÍ hvetur aðildarfélögin að hafa samband við skrifstofu KKÍ og fá dómarana í heimsókn.