24 nóv. 2016Ísland tók á móti Portúgal í gækvöldi í lokaleik sínum að þessu sinni í undankeppni EM, EuroBasket kvenna 2017. Lokatölur leiksins urðu 65:54 og þar með endaði íslenska liðið í 3. sæti riðilsins með tvo sigra og fjögur töp.

Gestirnir byrjuðu betur í 1. leikhluta og voru yfir 6:14 að honum loknum. Íslenska liði kom mun betur stemmt til leiks í öðrum leikhluta og náði með frábærri innkomu Hallveigar Jónsdóttur að vera yfir í hálfleik 31:29 og íslenska liðið komið yfir í fyrsta sinn í leiknum.

Íslenska liðið hélt áfram að hitta vel og spila flotta vörn í síðari hálfleik og með betri frákastabaráttu héldu þær Portúgal frá sér og sigruðu sanngjarnt að lokum.

Stigahæst í íslenska liðinu var afmælisbarnið Sigrún Sjöfn Ámundadóttir sem skoraði 16 stig og tók 8 fráköst, fyrirliðinn Gunnhildur Gunnarsdóttir var með 12 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar og Ingibjörg Jakobsdóttir var með 10 stig.

Framundan eru mögulega Smáþjóðaleikar í vor og æfingaleikir í sumar fyrir upphaf næstu undankeppni í nóvember 2017.