11 okt. 2016

Forsala KKÍ hófst í morgun á tix.is fyrir EuroBasket 2017 í Helsinki í Finnlandi. Hátt í 1.000 miðapakkar hafa selst nú þegar og er það svipaður fjöldi og lagði leið sína til Berlínar 2015. Það er því útlit fyrir að það verði mun fleiri sem sæki Finnland heim á EM 2017. Nú er pakki 1 (svæði 1 og 2) nánast uppseldur en ennþá eru þó þó nokkrir miðapakkar lausir í Pakka 2 (Svæði 1 og 3-4) og má búast við að þeir seljist upp næstu daga. 


KKÍ hvetur alla áhugasama á að tryggja sér miða í tíma fyrir EM og eru ástæður þess helst þessar:

- Í forsölunni eru bestu verðin og bestu sætin (allir leikir Íslands + 8 aðrir að auki).

- Allir Íslendingar sitja saman og því mesta stemningin á leikjunum fyrir þá sem hafa keypt miða í forsölunni.

- Í almennri miðasölu í desember mun FIN-ISL mjög líklega verða alveg uppseldur.

- Í almennri miðasölu í desember mun mögulega miðaverð á þrjá leiki verða svipað og á miðapökkum nú í forsölu auk þess að vera í lakari sætum/svæðum.

- KKÍ fær hluta af miðasölu seldra miða í gegnum tix.is í forsölunni.

Aðrar upplýsingar um mótið:

Leikdagar: 

Það skýrist endanlega 22. nóvember þegar dregið verður hvenær riðlillinn í Finnlandi hefst. Tveir riðlar (A og B) fara fram 31. ágúst-6. september og tveir riðlar (C og D) fara fram 1. september-7. september. 

 

Sjá mynd af leikjaplani allra riðlanna hér fyrir neðan:

Hótel og flug:

KKÍ hefur hafið undirbúning í samstarfi við íslenskar og finnskar ferðaskrifstofur um smíði á pökkum með flugi og gistingu fyrir EM. Þeir verða kynntir fljótlega en ferðaskrifstofurnar hafa tryggt góð verð í flug og gistingu fyrir íslenska aðdáendur.

 

Aðdáendasvæði og uppákomur:

Ísland í samstarfi við Finna mun setja upp skemmtilegt svæði fyrir stuðningsmenn í miðbæ Helsinki (Fan-Zone) þar sem ýmislegt verður í boði svo sem varningur, matur og drykkur og uppákomur, allt til að auka upplifunina og stemmninguna á EM.

 

Landsleikur í knattspyrnu 2. september · Finnland-Ísland í undankeppni HM:

KKÍ,  finnska sambandið í samvinnu við knattspyrnusambönd landanna hafa hafið undirbúning fyrir að haga uppsetning þannig að hægt verði að sjá tvo landsleiki þennan dag, fyrst í körfunni og svo um kvöldið í fótboltanum og þá ef hægt verður, að skipuleggja lestarferð milli leikvanga. Málið skýrist nánar eftir 22. nóvember þegar dregið verður í riðla og töfluröð.