17 sep. 201617. september er dagurinn sem markar söguleg tímamót í sögu Körfuknattleikssambands Íslands en í kvöld tryggði karla landsliðið sér sæti á lokamóti EM á næsta ári, EuroBasket 2017. Ísland tók þátt á síðasta lokamóti 2015 í Berlín og því er þetta í annað skipti í röð sem Ísland tekur þátt á stórasviðinu.

Leikurinn í kvöld var stórkostleg skemmtun. Uppselt var í Laugardalshöll og voru strákarnir okkar vel studdir áfram af íslenskum körfuboltaaðdáendum. Belgar leiddu 37:34 í hálfleik eftir að hafa náð smá forskoti í upphafi leiks. Okkar strákar komust í gírinn og héldu áfram berjast og komu til baka inn í leikinn. Í seinni hálfleik tóku okkar strákar hægt og sígandi völdin og sigldu sigrinum heim og tryggðu örugglega sæti sitt á EuroBasket 2017.

Allir íslensku leikmennirnir stóðu sig frábærlega og sigurinn í kvöld var liðssigur.

Framundan er dráttur í riðla þann 22. nóvember en dregið verður í Tyrklandi þar sem úrslit EuroBasket 2017 fara fram. Riðlakeppnin fer fram í Finnlandi, Rúmeníu, Ísrael og Tyrklandi og getur Ísland lent í hverju þessara landa.

Takk fyrir stuðninginn í kvöld íslenskir aðdáendur nær og fjær!