15 sep. 2016

Það er óhætt að segja að staða Íslands fyrir lokaleikinn við Belga á laugardag sé flókin. Margir velta fyrir sér hverjir möguleikar Íslands eru og ekki allir sem treysta sér í að rýna í það. KKÍ ætlar hér að reyna að gefa eins glögga mynd og hægt er en óhætt er að segja að það eru mörg EF inn í þessu. Auðveldast er að segja að Ísland verður að vinna og þá er málið dautt, það er því um að gera að drífa sig inn á tix.is, kaupa miða og mæta í stuði á laugardaginn í Laugardalshöllina og hvetja strákan til dáða.

En það er þó rétt að segja það strax, það er ekki öruggt að sigur dugi eins og útskýrt verður hér að neðan.

Segja má að leikur Kýpur og Sviss sem leikinn verður á laugardag kl 14 að íslenskum tíma á Kýpur sé svolítill lykilleikur og er því best að búa til sitthvora útlistunina eftir því hvernig hann fer.

Til að útskýra hvernig kerfið varðandi að finna fjögur bestu liðin í öðru sæti þá er þetta þannig að fyrst af öllu er fundin röð liða innan riðils útfrá úrslitum í riðlinum. Því næst eru öll lið sem eru í öðru sæti tekin saman og þar sem aðeins 3 lið eru í einum riðlinum þá eru úrslit liðanna, sem eru komin á annarssætislistann, gegn liðunum sem lentu í fjórða sæti þurrkuð út. Þar með eru komin 7 lið sem urðu í öðru sæti og öll með 4 leiki sem telja í þessum samanburði. Fyrst er skoðað hversu marga sigra liðin eru með, því næst er það munur á skoruðum stigum og stigum fengnum á sig.

Förum í gegnum riðlana.

A riðill. Belgía verður númer 1, Ísland númer 2 og sigurvegarinn í leik Kýpur og Sviss verður númer 3.

B riðill. Holland tekur á móti Þýskalandi í lokaumferðinni. Vinni Holland verða þeir númer 1, vinni Þýskaland hins vegar með 4 eða minna þá er Holland enn númer 1 en vinni Þýskaland með 5 eða meira þá verða þeir númer 1 og Holland 2. Ef Danir vinna Austurríki með 21 stigi eða meira þá enda Danir númer 3 en annars verður Austurríki númer 3. Þýskaland eða Holland í 2. sæti.

C riðill. Rússland verður númer 1, Bosnía og Hersegóvína númer 2 og Svíþjóð númer 3. Bosnía í 2. sæti.

D riðill. Pólland, Eistland og Hvíta Rússland geta öll orðið í sætum 1, 2 og 3. Portúgal verður númer 4. Eistar taka á móti Pólverjum á laugardag. Vinni Pólverjar verða þeir númer 1, Hvít Rússar 2 og Eistar 3. Vinni Eistar með 8 eða minna þá er staðan eins, Pólverjar númer 1, Hvít Rússar 2 og Eistar 3. Vinni Eistar með 9 til 12 stigum þá eru Pólverjar enn númer 1, Eistar komnir í 2. sætið og Hvít Rússar í það þriðja. Vinni Eistar hins vegar með 13 til 15 stigum þá eru Eistar númer 1, Pólverjar 2 og Hvít Rússar 3. Vinni Eistar með 16 stigum eða meira þá eru Eistar númer 1, Hvít Rússar númer 2 og Pólverjar númer 3. Pólland, Eistland og Hvíta Rússland geta öll orðið númer 2.

E riðill. Úkraína tekur á móti Slóveníu, ef Úkraína vinnur með 8 stigum eða meira þá eru þeir í fyrsta sæti og Slóvenar í öðru. Annars er Slóvenía í fyrsta og Úkraína í öðru. Kosovo þarf að vinna Búlgaríu með 32 stigum til að komast í þriðja sætið. Slóvenía eða Úkraína í 2. sæti

F riðill. Georgía tekur á móti Svartfjallalandi, ef Georgía vinnur með 3 stigum eða meira þá eru þeir í fyrsta sæti og Svartfjallaland í öðru. Annars er Svartfjallaland í fyrsta og Georgía í öðru. Kosovo þarf að vinna Búlgaríu með 32 stigum til að komast í þriðja sætið. Svartfjallaland eða Georgía í 2. sæti.

G riðill. Ungverjaland er búið að vinna riðilinn, Bretar verða í öðru, Makedónar í þriðja og Lúxemborg í fjórða. Bretland í öðru sæti.

Þá er hægt að taka saman liðin í öðru sæti og bera saman.

Byrjum á Íslandi, ef Sviss vinnur þá detta leikirnir við Kýpur út. Ísland er þá með 1 sigur og 2 töp auk leiksins við Belga . Gefin eru 2 stig fyrir sigur og 1 fyrir tap. Ísland er því með 4 stig plús leikinn við Belga. Annað hvort 5 eða 6 stig. Stigamunur liðsins er -2 auk leiksins við Belga
Vinni Kýpur detta leikirnir við Sviss út og þá er Ísland með 2 sigra og 1 tap auk leiksins við Belga. Það eru því 5 stig plús Belgaleikurinn og stigamunurinn er 18 plús Belgaleikurinn.
Ísland gæti því endað með 5 til 7 stig og stigamun upp á -2 eða 18 að viðbættum leiknum við Belga.

B riðill, Holland og Þýskaland. Vinni Þýskaland en er samt í öðru sæti þá eru þeir með 3 sigra og 1 tap eða 7 stig (18 +- Hollandsleik) að því gefnum að Austurríkismenn fari áfram. Fari hinsvegar Danir áfram þá eru Þjóðverjar með 2 sigra og 2 töp eða 6 stig (19 +- Hollandsleik). Tapi Þjóðverjar og Austurríki er áfram þá eru Þjóðverjar með 6 stig (18 +- Hollandsleik)  en ef Danir fara áfram þá eru Þjóðverjar með 5 stig (19 +- Hollandsleik). Verði Holland númer tvö þá eru þeir með 6 stig (15 +- Þýskalandsleik) ef Austurríki er í þriðja, annars 7 stig (32 +- Þýskalandsleik).
Þýskaland getur verið með 5 til 7 stig og stigamun upp á 18 eða 19 stig auk leiksins á laugardag.
Holland getur verið með 6 eða 7 stig og stigamun upp á 15 eða 32 stig auk leiksins á laugardag.

C riðill, Bosnía er í öðru sæti og hefur lokið keppni. Liðið er með 6 stig og -35 í stigamun.

D riðill, þar sem riðillinn er flókinn er einfaldast að útskýra þetta þannig að sama hvaða lið verður í öðru sæti þá er það lið með 6 stig og stigamunurinn er frá -2 stigum til 1 stig.

E riðill, úrslit í leik Slóveníu og Úkraínu ráða öllu. Eftir því sem sigur annars liðsins verður stærri þá endar liðið í öðru sæti með meiri mínus í stigamun. Vinni Úkraína þá endar liðið í öðru sæti með 7 stig en vinni Slóvenía þá endar Úkraína með 6 stig og stigamun upp á 8 +- leikinn við Slóveníu ef Búlgaría er í þriðja, ef Kosovo nær þriðja þá er Úkraína með 39 +- leikinn við Slóveníu í stigamun.

F riðill, þar má segja að Svartfjallaland og Georgía séu komin áfram. Ef Georgía vinnur lokaleik liðanna þá er liðið í öðru sæti með 7 stig. Tapi Georgía þá eru þeir með 6 stig og stigamun upp á 57 +- leikinn við Svartfjallaland.

E riðill, Bretar eiga aðeins eftir að mæta Lúxemborg og er það leikur sem mun ekki telja í þessum samanburði. Þeir eru með 6 stig og 17 í stigamun.

Þá til að draga saman möguleika Íslands.

Ef Kýpur vinnur og Ísland vinnur þá eru Íslendingar áfram.
Ef Sviss vinnur og Ísland vinnur þá er Ísland með 6 stig og stigamun upp á -2 plús leikinn við Belga. Þá þarf að vona að D riðill spilist rétt og að Slóvenar vinni Úkraínu með nokkrum mun. Bosnía er þriðja liðið sem situr eftir.
Ef Sviss vinnur og Ísland tapar þá er Ísland ekki að fara áfram.
Ef Kýpur vinnur og Ísland tapar þá er Ísland með 6 stig og stigamun upp á 18 mínus leikinn við Belga. Aftur skiptir máli hvernig fer í D riðli, eins að Slóvenar hafi unnið Úkraínu og enn er Bosnía úti.

Vonandi skýrir þetta málin eitthvað en eins og sést er ekki auðvelt að setja þetta fram í stuttu máli.