10 sep. 2016Íslenska landsliðið í körfubolta lauk þriggja leikja útileikja hrinu sinni í dag með tapi fyrir Sviss. Lokatölur urðu 83:80 fyrir heimamenn.

Eftir jafnan fyrri hálfleik voru það heimamenn í Sviss sem voru skrefi á undan og voru með þægilegt forskot þegar vel var liðið á loka leikhlutann. Íslenska liðið kom til baka en tíminn var því miður of naumur og þriggja stiga tap staðreynd.

Stigahæstir í dag í íslenska liðinu voru Martin Hermannson með 19 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar. Haukur Helgi Pálsson var með 18 stig og Elvar Már Friðriksson var með 16 stig. Hlynur Bæringsson var svo með 12 stig og 11 fráköst.

Framundan eru tveir heimaleikir gegn Kýpur þann 14. september og Belgíu þann 17. september í Laugardalshöllinni. Með sigri í þeim leikjum er Ísland komið áfram á lokamót EM í annað sinn. Einnig er möguleiki með hagstæðum úrslitum að sigur gegn Kýpur gæti dugað. 

Því er gríðarlega mikilvægt að íslenskir körfuboltaaðdáendur fjölmenni á næsta heimaleik og styðji strákana til sigurs. Miðasala er á tix.is og er stefnt að því að fylla Laugardalshöllina í næstu tveim leikjum.

Áfram Ísland!