10 sep. 2016Sviss og Ísland eigast við í undankeppni EM, EuroBasket 2017, í dag í Fribourg í Sviss. Leikurinn hefst kl. 15:30 að íslenskum tíma. Þetta er þriðji útileikurinn í röð hjá íslenska liðinu og jafnframt sá síðasti í undankeppninni. Strákarnir okkar eru staðráðnir í að klára þennan leik með sigri og halda síðan heim til Íslands á morgun.

Töluvert hefur verið um veikindi í íslenska hópnum. Ægir Þór Steinarsson veiktist í gær en virðist vera á batavegi og verður framhaldið skoðað á eftir með hann. Einnig hafa Martin Hermannsson og Hörður Axel Vilhjálmsson verið veikir í ferðinni, fyrst Martin fyrir leikinn gegn Belgum og svo Hörður Axel á ferðlaginu frá Belgíu til Sviss. Báðir eru þeir að ná sér á strik aftur.

Jón Arnór Stefánsson hefur verið meiddur, en hann æfði með liðinu í gær. Hann flaug beint í aðhlynningu frá Antwerpen til Valencia eftir leikinn gegn Belgíu og hitti svo liðið aftur í Sviss í fyrradag.

Það skýrsti því síðar í dag hvernig uppstilling liðsins verður nákvæmlega eftir æfingu nú í morgunsárið.

Leikurinn í dag verður því miður ekki aðgengilegur í gegnum gervihnött og því ekki í sjónvarpinu, einungis netstreymi er í boði frá Sviss og því verður leikurinn í beinni á ruv.is.