5 sep. 2016
Hlynur Bæringsson, landsliðsfyrirliði íslenska liðsins, og leikmaður Stjörnunnar, leikur sinn 100. landsleik á miðvikudaginn kemur gegn Belgíu.
Hlynur hefur verið einn af lykilmönnum íslenska liðsins síðustu ár og átt stóran þátt í velgengi liðsins.
Hlynur verður 13. íslenski körfuboltamaðurinn sem nær að spila hundrað A-landsleiki fyrir Ísland. Hinir eru Guðmundur Bragason, Valur Ingimundarson, Jón Kr. Gíslason, Torfi Magnússon, Guðjón Skúlason, Jón Sigurðsson, Teitur Örlygsson, Friðrik Stefánsson, Herbert Arnarson, Falur Harðarson, Jón Arnar Ingvarsson og núverandi samherji Hlyns, Logi Gunnarsson, sem hafa einnig náði því að spila 100 landsleiki fyrir Íslands hönd. Logi náði 100. landsleiknum sínum í júlí 2014 gegn Lúxemborg.
Hlynur lék sinn fyrsta A-landsliðsleik árið 2000 í Evrópukeppninni þá rétt tæplega 18 ára gamall gegn Makedóníu í Skopje. Hlynur segist muna vel eftir þeim leik, Ísland tapaði reyndar verðskuldað, en sérstaklega man hann hvað það var mikið reykt á leiknum eins og tíðkaðist í sumum löndum á íþróttaviðburðum.
Með Hlyni í þessum leik voru meðal annarra Hermann Hauksson, en í dag er sonur Hermanns, Martin Hermannsson, samherji Hlyns í landsliðinu og báðir eru þeir byrjunarliðsmenn.
Að sjálfsögðu er einn hluti landsliðsferilsins eftirminnilegastur, þegar kki.is spurði Hlyn hvað stæði upp úr á glæstum ferli, en það er þátttaka Íslands á lokamóti EM í fyrra, EuroBasket 2015, þegar Ísland lék í B-riðli í Berlín. Það eru stærstu leikirnir sem ísland hefur leikið í sögu KKÍ.
Að sama skapi sagði Hlynur að hann hafi aldrei verið eins stressaður fyrir landsleik eins og fyrir opnunarleikinn gegn Þýskalandi. Það hafi klárast í fyrri hálfleik enda lék allt íslenska liðið betur í þeim seinni en þeim fyrri. Mest svekkjandi tapið kom einnig á EM í næsta leik á eftir, í leik gegn Ítalíu. Þar lék íslenska liðið mjög vel og gat sigurinn fallið hvoru megin sem var í lok leiksins, en féll í vil Ítala. Nú stefnir Hlynur og íslenska liðið aftur á EM á næsta ári og ætlar að endurskrifa íslenska körfuboltasögu um leið.
Leikurinn gegn Belgum verður í beinni útsendingu á RÚV2 í sjónvarpinu og á netinu á ww.ruv.is/ruv-2/beint á miðvikudaginn kemur kl. 18:00 og lifandi tölfræði á heimasíðu mótins www.fiba.com/eurobasket2017 þar sem allar upplýsingar um undankeppnina fyrir EuroBasket 2017 er einnig að finna.
Hægt er að skoða landsleikjafjölda leikmanna á kki.is/landslid/karlar/leikjafjoldi/a-landslid
Áfram Ísland! #korfubolti #EuroBasket2017