3 sep. 2016Íslenska karla landsliðið lék í dag sinn annan leik í undankeppni EM. Leikið var í Nicosia á Kýpur og fór leikar þannig að Ísland hafði sigur, 64:75.

Íslenska liðið var einu stigi undir í hálfleik eftir að hafa verið mest 8 stigum undir. Strákarnir okkar héldu áfram að berjast og leika sinn sóknarleik og með góðri vörn náði íslenska liðið tökum á leiknum og unnu seinni hálfleikinn 44:32 sem skilaði 11 stiga sigri.

Atkvæðamestir í íslenska liðinu voru Martin Hermannsson var stigahæstur í dag með 21 stig og 6 stoðsendingar, Haukur Helgi Pálsson var með 19 stig og 6 fráköst og Hlynur Bæringsson var með 15 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar.

Á morgun sunnudag ferðast liðið til Belgíu þar sem næsti leikur í keppninni fer fram, en hann verður á miðvikudaginn kemur 7. september kl. 18:00 að íslenskum tíma. RÚV mun sýna hann beint á RÚV2.

Hægt er að sjá allt um keppninna, lifandi tölfræði frá öllum leikjum, myndir og stöðu og leikjaplan á fiba.com/eurobasket/2017/qualifiers

Áfram Ísland.