17 ágú. 2016Minningarsjóður Ölla var stofnaður haustið 2013 í kringum frumsýningu á heimildamyndinni um Örlyg Aron Sturluson, einn allra efnilegasta körfuboltamann sem Ísland hefur átt.

Ölli lék með meistaraliði Njarðvíkur og A-landsliði Íslands og var valinn fyrstur í lið í fyrsta Stjörnuleik Körfuknattleikssambands Íslands. Ölli lést af slysförum þann 16. janúar árið 2000, daginn eftir Stjörnuleikinn, aðeins 18 ára gamall. Minningarsjóður Ölla hefur það að markmiði að styrkja börn til íþróttaiðkunar sem ekki eiga kost á því vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra eða umsjónarmanna. Stjórn sjóðsins skipa þau Ólafur Stefánsson, handknattleiksmaður, Margrét Sanders, framkvæmdastjóri Deloitte og Halla Heimisdóttir, íþrótta- og lýðheilsufræðingur. Verndari sjóðsins er Þorgrímur Þráinsson.


Forsvarsmenn Minningarsjóðs Ölla vilja minna hlaupara í Reykjavíkurmaraþoninu 2016 að þeir geta hlaupið fyrir sjóðinn með því að skrá sig á hlaupastyrkur.is. Búið er að stofna hlaupahóp á Facebook sem telur rúmlega 200 manns en vonast er til þess að stór hluti þess fólks muni hlaupa fyrir málefnið.

Sjóðurinn tekur jafnframt á móti frjálsum framlögum en reikningsnúmer sjóðsins er 0322-26-021585, kt. 461113-1090.

Minningarsjóðurinn á Facebook: https://www.facebook.com/minningarsjodurolla
Hlaupahópurinn á Facebook: https://www.facebook.com/groups/1381669902093168/?fref=ts