13 ágú. 2016

Stelpurnar í U16 spiluðu sinn seinasta leik í riðlakeppninni á miðvikudaginn var gegn Úkraínu. Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleik og leiddu íslensku stelpurnar 21-20 í hálfleik. En í síðari hálfleik áttu íslensku stelpurnar erfitt með að skora og svo fór að Úkraína vann 48-36. Þar með var ljóst að liðið myndi spila um sæti 17.-23.

Stigahæst í liðinu var Birna Benónýsdóttir með 13 stig og 10 fráköst, Hrund Skúladóttir með 7 stig og Viktoría Steinþórsdóttir með 6 stig og 3 stoðsendingar.

Tölfræði leiksins má finna hér.

Í gær spiluðu stelpurnar við Kýpur og var þetta besti leikur liðsins í mótinu þar sem allt virtist ganga upp. Liðið var að spila frábæra vörn og voru duglegar að taka opin skot og skoruðu 20-25 stig í hverjum leikhluta. Það var aðeins í 3ja leikhluta er Kýpur náði að finna leið að körfunni en Kýpur vann þann leikhluta 25-20 en íslensku stelpurnar mættu einbeittar í 4ja leikhluta og unnu hann 21-1.

Stelpurnar voru að hitta mjög vel úr þriggja stiga skotum en alls skoruðu þær 18 þriggja stiga körfur og tóku alls 50 þriggja stiga skot.

Stigahæst var Birna Benónýsdóttir með 20 stig, 5 fráköst og 7 stoðsendingar, Eydís Þórisdóttir með 19 stig og Hrund Skúladóttir með 9 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar.

Tölfræði leiksins má sjá hér.

Í dag spila stelpurnar við Austurríki kl.17:15 að íslenskum tíma og má fylgjast með tölfræði leiksins hér. Sigurvegari leiksins mun spila um 17. sæti á morgun kl.13:15 að íslenskum tíma.