12 ágú. 2016

Ísland hefur leik á æfingamóti í Austurríki í dag þegar liðið mætir Póllandi í Multiversum Schwechat-höllinni klukkan 18 í Austurríki eða kl. 16:00 að íslenskum tíma.

Hópurinn hélt til Austurríkis á miðvikudagsmorguninn og hefur æft af krafti í höllinni í gær og fyrradag og spenningur í hópnum að spila fyrsta æfingaleik sumarsins.

Þjóðirnar hafa leikið 13 sinnum og hafa Íslendingar unnið 3 leiki. Liðin mættust síðast á æfingamóti í Póllandi fyrir ári síðan, áður en íslenska liðið hélt til Berlín og tók þátt í Eurobasket.

Fyrir þá sem eru í nágrenninu er um að gera að kíkja á leikinn eða einhvern leikja Íslands um helgina. Eins og fyrr segir er leikið í Multiversum Schwechat höllinni í Schwechat en þeir sem ekki komast geta farið á www.laola1.tv og horft á alla leikina. 

Því miður bjóða Austurríkismennirnir ekki upp á lifandi tölfræði en við munum færa fréttir af helstu tölum jafnt og þétt á helstu samfélagsmiðlum.

Ísland mætir svo Austurríki á laugardag klukkan 18:00 að staðartíma (16:00 á Íslandi) og Slóveníu á sunnudag klukkan 16:00 að staðartíma (14:00 að íslenskum tíma).