11 ágú. 2016
Karlalandsliðið hefur leik í undankeppni EuroBasket 2017 þann 31. ágúst næstkomandi með heimaleik gegn Sviss. Búið er að breyta leikstað á heimaleikjum liðsins og verður leikið í Laugardalshöll. Leikirnir áttu að fara fram í Smáranum í Kópavogi.
Í síðustu viku kom sú staða upp að viðburður sem bókaður var í Laugardalshöll um miðjan september n.k. verður ekki. Sá viðburður var bókaður með löngum fyrirvara og áður en KKÍ fékk upplýsingar um leikdaga í undankeppninni frá FIBA Europe. Samkomulag hafði því verið verið gert við Breiðablik um að leikirnir yrðu spilaðir í Smáranum í haust og var FIBA Europe búið að samþykkja undanþágu fyrir Smárann þannig að leikirnir gætu farið fram þar.
Laugardalshöllin er heimavöllur landsliða okkar og því var tekin ákvörðun eftir viðræður við alla sem að málinu komu að landsleikirnir fari fram í Laugardalshöll.
KKÍ þakkar forsvarsmönnum Breiðabliks og Kópavogsbæjar fyrir þann mikla velvilja sem landsliðum okkar var sýndur með því að bjóða fram Smárann sem leikstað. Jafnframt vill KKÍ koma á framfæri þakklæti til Reykjavíkurborgar, ÍBR og Laugardalshallar fyrir að leysa málin á þann hátt að strákarnir okkar geti spilað á heimavellinum okkar.
Heimaleikir karlalandsliðsins eru:
ÍSLAND - Sviss miðvikudaginn 31. ágúst kl. 19:15
ÍSLAND - Kýpur miðvikudaginn 14. september kl. 20:15
ÍSLAND - Belgía laugardaginn 17. september kl. 16:00