29 jún. 2016
Leikir dagsins í dag voru gegn Eistum og varð niðurstaða einn sigur hjá U16 ára liði stúlkna. Þær áttu flottan leik í dag þar sem þær höfðu 16 stiga sigur. U18 ára liðin byrjuðu daginn á sínum leikjum. Karlaliðið var í jöfnum leik sem tapaðist í lokin. Engu að síður var vitað fyrir leik að þeir myndu leika til úrslita gegn Finnum á morgun og þar hafa þeir tækifæri á að verða Norðurlandameistarar.
U18 kvenna tapaði með 12 stiga mun og eru með tvö töp og tvo sigra fyrir lokadaginn á morgun. U16 ára lið drengja var yfir allan tímann í sínum leik sem var spennandi og skemmtilegur. Þegar 12.7 sek. voru eftir áttu Eistar innkast og eftir þrjú sóknarfráköst náðu þeir að blaka boltanum ofaní um leið og klukkan gall og því svekkjandi eins stigs tap staðreynd.
Loka keppnisdagurinn á NM er á morgun og þá verða andstæðingar okkar heimamenn Finnar.
Ítarleg umfjöllun um hvern leik er að finna á karfan.is og myndasöfn úr hverjum leik. Hér fyrir neðan er hægt að skoða tölfræði leikjanna.
Úrslit og tölfræði leikjanna í dag miðvikudaginn 29. júní:
U18 karla · Eistland 73:71 Ísland
U18 kvenna · Eistland 55:43 Ísland
U16 stúlkna · Eistland 55:71 Ísland
U16 drengja · Eistland 82:81 Ísland