28 jún. 2016
Fyrir leiki dagsins í dag voru Ísland, Finnland og Svíþjóð öll búinn að vinna sína fyrstu tvo leiki bæði í U18 karla og U18 kvenna. Það var því flottur sigur hjá U18 körlum í opnunarleik dagsins og þeir komnir í 3-0 á mótinu og eiga eftir leiki næstu tvo daga gegn Eistlandi og Finnlandi sem verður spennandi að sjá hvernig fara.
U18 kvenna, U16 stúlkna og U16 drengja léku öll samtímis og byrjuðu drengirnir á því að vinna sinn leik eftir frábæra annan og þriðja leikhluta þar sem þeir lögðu grunninn að sigrinum og unnu að lokum öruggan sigur. Arnór Sveinsson fór mikinn og skoraði 38 stig.
Stelpuliðin voru í jöfnum leikjum framan af en hjá U16 stúlkna voru þær sænsku sterkari í seinni hálfleik og sigruðu þar sem sóknarleikur okkar stelpna gekk illa. Það sama var uppi á teningnum hjá U18 kvenna, sem eftir jafnan fyrri hálfleik þar sem staðan var 33:33, áttu þær slæman 3. leikhluta sem sænska liðið vann með 11 stigum sem vó þungt í lokin í annars jöfnum leik. Lokatölur 72:59 fyrir Svíum.
Á morgun er það fjórði keppnisdagurinn á NM í Finnlandi og þá leika okkar lið gegn liði Eista.
Ítarleg umfjöllun um hvern leik er að finna á karfan.is og myndasöfn úr hverjum leik. Hér fyrir neðan er hægt að skoða tölfræði leikjanna.
Úrslit og tölfræði leikjanna í dag þriðjudaginn 28. júní:
U18 karla · Svíþjóð 62:78 Ísland
U18 kvenna · Svíþjóð 72:59 Ísland
U16 stúlkna · Svíþjóð 54:38 Ísland
U16 drengja · Svíþjóð 66:94 Ísland