17 maí 2016
Nú er keppnistímabilinu 2015/2016 formlega lokið en í gær annan í hvítasunnu fóru fram síðustu leikir tímabilsins þegar Íslandsmeistarar vorur krýndir í fjórum flokkum yngri flokkanna.
Það má segja að enn og aftur toppi körfuboltinn sjálfan sig frá árinu á undan, og þá er alveg sama hvort horft er til yngri flokka eða meistaraflokka þá hefur nýliðið tímabil verið gott og eru vinsældir körfuboltans í hæstu hæðum.
Gróskan er mikil sem sést mjög vel á dreifingu Íslands-og bikarmeistaratitla í yngri flokkunum og fjölgun iðkenda en samkvæmt iðkendatölum félaganna er ljóst að aldrei hafa fleiri krakkar verið að æfa íþróttina okkar eins og í vetur Eitt mikilvægasta starfið okkar er að fá fleiri og fleiri til að koma og æfa körfubolta. Því þarf að hlúa vel að grasrótinni og yngstu iðkendunum og er ánægjulegt að sjá hversu mörg félög eru farin að hafa skipulega æfingar fyrir 4-6 ára (krílabolta/leikskólabolta). Körfuknattleiksfélgögin að vinna frábæra vinnu við að efla körfuna á sínu svæði.
Deildar- og úrslitakeppnir meistaraflokkanna voru skemmtilegar og mikill fjöldi áhorfenda mætti í íþróttahúsin til að styðja sín lið. Á oddaleik Domino´s deildar kvenna mættu um 1700 áhorfendur og uppselt varð á oddaleikinn um laust sæti í 1.d.karla.
Umfjöllun fjölmiðla og beinar útsendingar frá körfuboltanum sló öll met á þessu keppnistímabili. Það voru vel yfir 100 beinar útsendingar frá landsliðunum okkar (RÚV), Domino´s deildunum (Stöð2 Sport) og Powerade bikarnum (RÚV) ásamt mjög mörgum beinum útsendingum á netinu frá úrslitum yngri flokka og svo á vegum félaganna sjálfra. Sérlega ánægjulegt voru beinar útsendingar Stöðvar2 Sport frá Domino´s deild kvenna en þetta var í fyrsta sinn í sögu íslensks sjónvarps þar sem sýnt er beint frá hverri einustu umferð í boltaíþrótt hjá konunum. Körfuboltakvöldið á Stöð2 Sport sló í gegn og laðaði að enn fleiri áhorfendur að íþróttinni okkar. Fjölmiðlum öllum þakka ég fyrir gott og ánægjulegt samstarf í vetur.
Þrátt fyrir að komið sé vor er af nægum verkefnum taka hjá okkur og meðal annars verða landsliðin okkar við æfingar og keppni í sumar ásamt æfingum og sumarnámkeiðum félaganna okkar. Það er afar mikilvægt að nýta sumarið vel til æfinga fyrir iðkendurnar og fyrir stjórnendur að skipuleggja starf næsta tímabils.
Fyrir hönd stjórnar og starfsmanna KKÍ þakka ég öllu körfuboltafólki fyrir skemmtilegt og um margt sögulegt keppnistímabil. Keppnistímabil sem er sigur allra þeirra er komið hafa að körfunni undandarin ár.
Ég þakka af heilum hug öllum þeim sjálfboðaliðum sem sinna starfi körfuboltans hringinn í kringum landið , ykkar starf er mikils metið.
Áfram körfubolti!
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ