25 feb. 2016

Það var nóg af flottum og skemmtilegum tölum í frábærum sigri íslensku stelpnanna á Ungverjum. 

Íslenska kvennalandsliðið vann sinn fyrsta sigur í undankeppni EM 2017 í gær þegar íslensku stelpurnar fögnuðu tíu stiga sigri á sterku liði Ungverja sem hafði unnið þrjá fyrstu leiki sína í riðlinum.

Þetta er án vafa stærsti sigur í sögu íslenska kvennalandsliðsins og það var nóg af flottum og skemmtilegum tölum úr leiknum. Nokkrar þeirra má finna hér fyrir neðan.

Landsliðsfyrirliðinn Helena Sverrisdóttir (29 stig, 16 fráköst, 8 stoðsendingar), var aðeins tveimur stoðsendingum frá þrennunni en hún fékk líka góða hjálp því alls skoruðu sjö leikmenn liðsins sex stig eða meira.


Tölur úr tíu stiga sigri íslenska kvennalandsliðsins á Ungverjalandi 24. febrúar 2016:

2373
Íslenska kvennalandsliðið vann sinn fyrsta leik í Evrópukeppni síðan að liðið vann Írland 77-68 á Ásvöllum 26. ágúst 2009. Síðan voru liðin 6 ár, 5 mánuðir og 29 dagar sem samtals gerir 2273 daga. Fjórir leikmenn íslenska liðsins í gær voru einnig með í þeim leik en það eru þær Helena Sverrisdóttir, Bryndís Guðmundsdóttir, Ragna Margrét Brynjarsdóttir og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir.

39:37
Ungverska liðið var ekki yfir í eina sekúndu í öllum leiknum. Íslensku stelpurnar komust í 8-0 í byrjun og voru með forystuna í 39 mínútur og 37 sekúndur af þeim 40 mínútum sem voru í boði.

24
Íslenska liðið fékk 24 fleiri stig út úr þriggja stiga skotum en ungverska liðið, skoraði 12 þrista á móti aðeins 4 hjá Ungverjum.

+10
Íslensku stelpurnar unnu fráköstin annan leikinn í röð en þær tóku tíu fleiri fráköst en ungverska liðið í leiknum (38-28).

5
Fimm leikmenn íslenska liðsins skoruðu þriggja stiga körfu í leiknum en það voru þær Helena Sverrisdóttir (5), Pálína Gunnlaugsdóttir (4), Bryndís Guðmundsdóttir (1), Margrét Kara Sturludóttir (1) og Gunnhildur Gunnarsdóttir (1).

13 af 17
Helena Sverrisdóttir kom að 13 af 17 körfum íslenska liðsins í fyrri hálfleik, skoraði átta körfur sjálf og átti að auki fimm stoðsendingar. Hún var með 20 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar í fyrri hálfleiknum.

34
Íslenska liðið skoraði 34 stig í teignum í leiknum eða tveimur stigum meira en ungverska liðið sem skoraði bara 32 stig nálægt körfunni. Íslenska liðið tapaði stigum úr teignum með sextán stigum í leiknum út í Portúgal (18-34).

27-9
Ívar Ásgrímsson kom Ungverjum á óvart með því að setja Ingunni Emblu Kristínardóttur inn í byrjunarliðið, setja Helenu Sverrisdóttur í fjarkann og byrja með lítið lið. Byrjunarliðið sem innihélt einnig Bryndísi Guðmundsdóttur, Gunnhildi Gunnarsdóttur og Pálínu Gunnlaugsdóttur vann þær átta mínútur sem þær spiluðu saman með 18 stigum (27-9).

5 með 50%
Fimm leikmenn íslenska liðsins voru með 50 prósent eða betri skotnýtingu í leiknum. Margrét Kara Sturludóttir nýtti öll 3 skotin sín, Bryndís Guðmundsdóttir nýtti 3 af 4 skotum sínum (75 prósent), Sandra Lind Þrastardóttir var með 67 prósent skotnýtingu (6/4), Helena Sverrisdóttir skilaði 10 af 19 skotum sínum rétta leið (53 prósent) og Gunnhildur Gunnarsdóttir var með 50 prósent skotnýtingu í leiknum (12/6).

15-15
Helena Sverrisdóttir skoraði jafnmörg stig í fyrsta leikhlutanum og allt ungverska liðið til samans. Íslenska liðið fékk sjö stig frá öðrum leikmönnum í leikhlutanum og var því með 22-15 forystu eftir fyrstu tíu mínútur leiksins.

21
Íslenska liðið náði mest 21 stigs forystu í leiknum þegar Gunnhildur Gunnarsdóttir kom Íslandi í 57-36 þegar 2:31 mínúta var liðin af þriðja leikhlutanum en íslenska liðið vann upphafsmínútur seinni hálfleiksins 11-1.

+14, +7, +10, +3

Íslenska byrjaði fyrsta leikinn á 18-4 spretti, vann fyrstu tvær mínútur annars leikhluta 9-2, skoraði 11 af fyrstu 12 stigum þriðja leikhlutans og vann upphafsmínútur fjórða leikhlutans 5-2.

32
Íslensku stelpurnar töpuðu fyrri leiknum í Ungverjalandi með 22 stigum, 72-50. Það var því 32 stiga sveifla á milli leikjanna. Íslensku stelpurnar bættu skotnýtingu sína um rúm 24 prósent frá því að nýta skotin sín 27 prósent út í Ungverjalandi (18 af 66) í það að nýta 52 prófent skota sinna í gær (32 af 62).