24 feb. 2016Íslenska kvennalandsliðið vann frábæran sigur á ósigruðu toppliði Ungverja í Laugardalshöllinni í kvöld þegar liðin mættust í fjórðu umferð í undankeppni Evrópukeppninnar. Íslensku stelpurnar byrjuðu leikinn frábærlega, stóðust öll áhlaup gestanna og unnu að lokum sannfærandi tíu stiga sigur, 87-77.

Fyrirliðinn Helena Sverrisdóttir var mögnuð í leiknum og var á endanum aðeins tveimur stoðsendingum frá þrennunni en Helena endaði með 29 stig, 16 fráköst og 8 stoðsendingar. Helena hefur sjaldan spilað betur í landsliðsbúningnum en einmitt í kvöld því varnarlega var hún líka að standa sig mjög vel í fjarkanum.

Það voru líka fleiri en Helena að spila vel í kvöld og nú bæði í vörn og sókn. Alls skoruðu sjö leikmenn íslenska liðsins sex stig eða meira, þrír byrjunarliðsmenn voru með 12 stig eða meira og liðið fékk alls 22 stig frá bekknum.

Íslenska liðið hafði tapað fyrstu þremur leikjum sínum í riðlinum þar sem vörnin gekk vel en sóknarleikurinn var stirðbusalegur og gekk illa. Í kvöld léku íslensku stelpurnar við hvern sinn fingur í sókninni og íslenska liðið var að frá framlög úr öllum hornum.

Frábært samspil og glæsilegar körfur voru algeng sjón á fjölum hallarinnar í kvöld og ungverski þjálfarinn átti fá svör á móti grimmum, einbeittum og samstilltum íslenskum stelpum.

Íslenska liðið var komið fjórtán stigum yfir eftir aðeins rúmlega fimm mínútna leik, 18-4, vann fyrstu þrjá leikhlutana og komst mest 21 stigi yfir í upphafi seinni hálfleiksins, 57-36.

Þetta var fyrstu sigur íslenska liðsins í Evrópukeppni í meira en sex ár og án vafa flottasti sigur íslenska kvennalandsliðsins frá upphafi enda að mæta þarna ósigruðu ungversku liðið sem var með á síðasta Evrópumóti.

Íslensku stelpurnar skoruðu tólf þriggja stiga körfur í leiknum, unnu fráköstin 38-28 og skoruðu fleiri stig inn í teig en ungverska liðið. Það var ekki veikan blett að finna í leik liðsins og fyrir vikið hristu þær heldur betur upp í riðlinum með þessum frábæra sigri.

Íslenska liðið var sjö stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 22-15, þar sem Helena Sverrisdóttir skoraði jafnmörg stig og allt ungverska liðið. Íslensku stelpurnar voru síðan ellefu stigum yfir í hálfleik, 46-35, þar sem Helena var komin með 20 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar.

Gunnhildur Gunnarsdóttir og Pálína Gunnlaugsdóttir komu heldur betur öflugar inn í seinni hálfleikinn þar sem þær skoruðu 17 af 26 stigum sínum en Pálína skoraði þrjár þriggja stiga körfur í seinni hálfleiknum.

Ungverska liðið náði góðum kafla í lok þriðja leikhlutans og minnkaði muninn í tólf stig, 68-56. Helena skoraði 5 stig á upphafsmínútum fjórða leikhlutans og komu muninum aftur upp fimmtán stig, 73-58.

Íslensku stelpurnar stóðust síðan öll áhlaup og Bryndís Guðmundsdóttir fór langt með að tryggja sigurinn með hún setti þrist og kom íslenska liðinu í 80-65 þegar aðeins fimm mínútur voru eftir.

Íslenska liðið var 17 stigum yfir, 87-70. þegar 80 sekúndur voru eftir af leiknum og það skipti engu máli þótt Ungverjarnir hafi skorað sjö síðustu stigin. Öruggur íslenskur sigur var í höfn.


Stig og helsta tölfræði íslensku stelpnanna í leiknum:
Helena Sverrisdóttir 29 stig, 16 fráköst, 8 stoðsendingar
Gunnhildur Gunnarsdóttir 14 stig, 3 stoðsendingar
Pálína Gunnlaugsdóttir 12 stig, hitti úr 4 af 7 þriggja stiga skotum
Sandra Lind Þrastardóttir 9 stig, 3 fráköst, 2 stoðsendingar
Bryndís Guðmundsdóttir 7 stig, 5 fráköst, 3 stoðsendingar
Margrét Kara Sturludóttir 7 stig, hitti úr öllum 3 skotum sínum
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 6 stig, 3 fráköst, 2 stoðsendingar
Ingunn Embla Kristínardóttir 3 stig, 3 fráköst, 2 stoðsendingar
Berglind Gunnarsdóttir og Ragna Margrét Brynjarsdóttir skoruðu ekki
Salbjörg Ragna Sævarsdóttir og Auður Ólafsdóttir komu ekki við sögu.