24 feb. 2016
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir verður í kvöld tólfta íslenska konan sem nær því að spila 40 A-landsleiki fyrir Ísland. Sigrún nær þessum tímamótum þegar íslenska kvennalandsliðið mætir Ungverjalandi í Laugardalshöllinni í kvöld í fjórða leik sínum í undankeppni EM 2017. 

Sigrún er eins og er jöfn þeim Lindu Stefánsdóttur og Hönnu B. Kjartansdóttur sem spiluðu á sínum tíma 39 A-landsleiki hvor. Linda lék sína 39 leiki frá 1989 til 1999 en Hanna frá 1991 til 2003.

Sigrún lék sinn fyrsta landsleik á móti Hollandi á Ásvöllum 1. september 2007 og hefur spilað 39 af 42 leikjum íslenska landsliðsins frá þeim tíma. Það hefur bara einn leikmaður spilað fleiri landsleiki á þessum tíma og það er landsliðsfyrirliðinn Helena Sverrisdóttir. 

Þetta er sjöunda landsliðsár Sigrúnar sem hefur verið með á öllum virkum landsliðsárum frá 2007 fyrir utan árið 2013 þegar hún var ekki valin í liðið sem tók þátt í Smáþjóðaleikunum. 

Sigrún hefur skorað 167 stig í þessum 39 leikjum eða 4,3 stig að meðaltali í leik. Hún er nítjándi stigahæsti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins frá upphafi. Sigrúnu vantar nú tólf stig til að ná Hönnu B. Kjartansdóttur sem er í 18. sætinu. 

Sigrún er í áttunda sæti yfir flestar þriggja stiga körfur (27) og deilir því sæti eins og er með Öldu Leif Jónsdóttur. Sigrúnu vantar fjóra þrista til að komast upp að hlið Kristrúnu Sigurjónsdóttur sem er í sjöunda sætinu.

Sigrún kom með tólf stig og þrjá þrista inn af bekknum í síðasta leik á móti Portúgal en hún hefur bara einu sinni skorað fleiri stig í einum leik en það var á móti Austurríki í úrslitaleik Evrópumóts Smáþjóða í júlí 2014. 

Leikur Íslands og Ungverjalands hefst klukkan 19.30 í Laugardalshöllinni en þetta er annar heimaleikur íslensku stelpnanna í undankeppni EM 2017.
Flestir A-landsleikir kvenna:
Hildur Sigurðardóttir  · 79
Birna Valgarðsdóttir · 76
Signý Hermannsdóttir · 61
Anna María Sveinsdóttir · 60
Helena Sverrisdóttir · 60
Guðbjörg Norðfjörð · 53
Helga Þorvaldsdóttir · 53
Alda Leif Jónsdóttir · 52
Erla Þorsteinsdóttir · 48
Kristín Blöndal · 45
María Ben Erlingsdóttir · 43
Linda Stefánsdóttir · 39
Hanna B. Kjartansdóttir · 39
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir · 39
Bryndís Guðmundsdóttir · 38
Erla Reynisdóttir · 34
Kristrún Sigurjónsdóttir · 34
Pálína Gunnlaugsdóttir · 34
Björg Hafsteinsdóttir · 33
Ragna Margrét Brynjarsdóttir · 32
Anna Dís Sveinbjörnsdóttir · 30

Skipting A-landsleikja Sigrúnar eftir keppnum:
Evrópukeppni · 16 leikir
Norðurlandamót ·
Smáþjóðaleikar ·
Evrópukeppni smáþjóða · 4
Vináttuleikir ·

Skipting A-landsleikja Sigrúnar eftir þjálfurum:
Ívar Ásgrímsson ·  15 leikir
Ágúst Björgvinsson · 9
Henning Henningsson · 8
Sverrir Þór Sverrisson · 4
Guðjón Skúlason · 3