24 feb. 2016Helena Sverrisdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta, nálgaðist heldur betur hundrað stoðsendinguna sína í Evrópukeppni í leiknum á móti Portúgal í Ilhavo á laugardaginn var.
Helena fékk fimm stoðsendingar skráðar í leiknum og hefur þar með gefið 19 stoðsendingar í fyrstu þremur leikjum íslenska liðsins í undankeppni EM 2017 sem gerir 6,3 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Helena er eins og er í þriðja sæti yfir flestar stoðsendingar eftir þrjá umferðir í undankeppninni en hún er á eftir Spánverjanum Laia Palau (6,5) og Tyrkjanum Isil Alben (6,5).
19 stoðsendingar Helenu í þessari undankeppni þýða jafnframt að hún hefur gefið 99 stoðsendingar í 19 leikjum sínum í Evrópukeppninni. Þetta eru 6 leikir í undankeppni EM 2007 og 10 leikir í undankepppni EM 2009 í viðbót við leikina þrjá í núverandi undankeppni.
Helena varð í fyrsta sæti í stoðsendingum bæði í B-deild Evrópukeppninnar 2007 (3,5 í leik) og í b-deild Evrópukeppninnar 2009 (5,9 í leik). Þá lék íslenska liðið í b-hlutanum en núna eru A- og B-deildirnar sameinaðar sem þýðir að íslensku stelpurnar eru að mæta sterkari liðum í undankeppni EM 2017.
Helena er með 99 stoðsendingar í 19 leikjum sem gera 5,2 stoðsendingar að meðaltali í leik en hún hefur gefið 75 fleiri stoðsendingar en næsta kona á listanum sem er Signý Hermannsdóttir.
Helena er auk stoðsendinganna með 18,9 stig og 8,8 fráköst að meðaltali í leik þessum 19 leikjum sínum í Evrópukeppni frá 2006.
Hún hefur þegar komist yfir hundrað stiga og hundrað frákasta múrinn og nú eru líkur á því að henni takist að ná hundruðust stoðsendingunni í leiknum á móti Ungverjalandi í Laugardalshöllinni í kvöld.
Flestar stoðsendingar íslenskra körfuboltakvenna í Evrópukeppni:
Helena Sverrisdóttir · 99
Signý Hermannsdóttir · 24
Hildur Sigurðardóttir · 20
Pálína Gunnlaugsdóttir · 17
Kristrún Sigurjónsdóttir · 13
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir · 12
Birna Valgarðsdóttir · 11
María Ben Erlingsdóttir · 8
Bryndís Guðmundsdóttir · 6
Ragna Margrét Brynjarsdóttir · 5
Margrét Kara Sturludóttir · 5
Svava Ósk Stefánsdóttir · 3