23 feb. 2016
Helena Sverrisdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta, var í byrjunarliði Ívars Ásgrímssonar í 22. sinn í leiknum á móti Portúgal á laugardaginn. Helena jafnaði með því met Hildar Sigurðardóttir en enginn leikmaður íslenska kvennalandsliðsins hefur verið oftar í byrjunarliði hjá einum þjálfara íslenska kvennalandsliðsins.
Hildur Sigurðadóttir var í byrjunarliði Ívars Ásgrímssonar í 22. sinn þegar Ísland mætti Austurríki í Evrópumóti Smáþjóða sumarið 2014 en það var jafnframt síðasti landsleikur Hildar á ferlinum.
Birna Valgarðsdóttir og Signý Hermannsdóttir áttu áður metið en þær byrjuðu báðar 20 af 20 leikjum íslenska liðsins undir stjórn Ívars Ásgrímssonar á árunum 2004 til 2005.
Birna og Signý bættu þá fimmtán ára met Önnu Maríu Sveinsdóttur frá árunum 1989 til 1993 sem byrjaði þá 19 leiki undir stjórn Torfa Magnússonar.
Helena Sverrisdóttir hefur spilað 27 leiki undir stjórn Ívars og verið í byrjunarliðinu í 22 þeirra. Hún hefur byrjað inná í þeim 19 síðustu eða öllum leikjum sem hún hefur spilað fyrir Ívar frá því í leik á móti Englandi í Njarðvík í maímánuði 2005.
Helena hefur skorað 17 stig að meðaltali í þessum 22 leikjum og verið stigahæst í sextán leikjanna sem gerir 73 prósent þeirra.
Helena getur síðan eignast metið ein verði hún í byrjunarliði íslenska landsliðsins á móti Ungverjalandi í Laugardalshöllinni á miðvikudagskvöldið. Leikurinn hefst klukkan 19.30.
Oftast í byrjunarliði hjá landsliðsþjálfara:
22 leikir
Hildur Sigurðardóttir (Ívar Ásgrímsson)
Helena Sverrisdóttir (Ívar Ásgrímsson)
20 leikir
Birna Valgarðsdóttir (Ívar Ásgrímsson)
Signý Hermannsdóttir (Ívar Ásgrímsson)
19 leikir
Anna María Sveinsdóttir (Torfi Magnússon)
17 leikir
Alda Leif Jónsdóttir (Ívar Ásgrímsson)
Anna María Sveinsdóttir (Sigurður Ingimundarson)
Guðbjörg Norðfjörð (Sigurður Ingimundarson)
16 leikir
Björg Hafsteinsdóttir (Torfi Magnússon)
15 leikir
Helga Þorvaldsdóttir (Sigurður Ingimundarson)
Bryndís Guðmundsdóttir (Ívar Ásgrímsson)
13 leikir
Linda Stefánsdóttir (Sigurður Ingimundarson)
Anna Dís Sveinbjörnsdóttir (Sigurður Ingimundarson)
Erla Þorsteinsdóttir (Ívar Ásgrímsson)
11 leikir
Linda Stefánsdóttir (Torfi Magnússon)
10 leikir
Pálína Gunnlaugsdóttir (Ívar Ásgrímsson)