23 feb. 2016Margrét Kara Sturludóttir tók átta fráköst í leiknum á móti Portúgal í Ilhavo á laugardaginn og gerði um leið betur en allar þær landsliðkonur sem ekki hafa náð að spila meira en helming leiktímans.

Margrét Kara Sturludóttir var þarna að leik sinn fyrsta landsleik frá árinu 2012 og fyrsta leik í Evrópukeppni frá því um miðjan september árið 2007. Margrét Kara tók þessi átta fráköst á aðeins fimmtán mínútum og fimm sekúndum en hún tók þrjú sóknarfráköst og fimm varnarfráköst í leiknum og hjálpaði íslenska liðinu að vinna frákastabaráttuna.

Margrét Kara tók þrjú fráköst á tæpum sjö spiluðum mínútur í fyrri hálfleiknum og svo fimm fráköst á átta mínútum í þeim síðari. Það var bara Helena Sverrisdóttir sem tók fleiri fráköst en landsliðsfyrirliðinn var með tólf fráköst á þeim rétt tæpu 36 mínútum sem hún spilaði í leiknum.

Margrét Kara sló með þessu sitt eigið met en hún hafði tekið sex fráköst á aðeins þrettán mínútum í leik á móti Hollandi á Ásvöllum árið 2007. Margrét Kara hefur alls spilað 69 mínútur í 6 leikjum sínum í Evrópukeppni og hún hefur hrifsað til sín 22 fráköst á þeim tíma eða frákast á rétt rúmlega þriggja mínútna fresti.

Það voru alls 33 fráköst í boði á þeim fimmtán mínútum sem Margrét Kara spilaði og hún tók því 24 prósent frákasta þegar hún var inná vellinum. Íslenska liðið vann líka fráköstin með +7 fráköstum (20-13) þegar hún var inn á vellinum.

Margrét Kara Sturludóttir spilar sinn fyrsta heimaleik í rúmlega átta ár þegar íslenska liðið tekur á móti Ungverjalandi í Laugardalshöllinni klukkan 19:30 annað kvöld. Margrét Kara hefur ekki spilað landsleik á heimavelli síðan á móti Hollandi 1. september 2007.


Flest fráköst í leik í Evrópukeppni á innan við tuttugu mínútum spiluðum:
Margrét Kara Sturludóttir · 8 fráköst á 15 mín. (á móti Portúgal, 20.2.2016)
Margrét Kara Sturludóttir · 6 fráköst á 13 mín. (á móti Hollandi, 1.9.2007)
Kristrún Sigurjónsdóttir · 5 fráköst á 18 mín. (á móti Hollandi, 9.9.2006)
Bryndís Guðmundsdóttir · 5 fráköst á 14 mín. (á móti Sviss, 15.8.2009)
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir · 5 fráköst á 18 mín. (á móti Sviss, 27.8.2008)
Helga Jónasdóttir · 5 fráköst á 11 mín. (á móti Írlandi, 23.9.2006)
Gunnhildur Gunnarsdóttir · 5 fráköst á 13 mín. (á móti Slóvakíu, 25.11.2015)
Pálína Gunnlaugsdóttir · 5 fráköst á 18 mín. (á móti Hollandi, 9.9.2006)
Ragna Margrét Brynjarsdóttir · 5 fráköst á 13 mín. (á móti Írlandi, 26.8.2009)
Ragna Margrét Brynjarsdóttir · 5 fráköst á 15 mín. (á móti Portúgal, 20.2.2016)
Margrét Kara Sturludóttir  · 5 fráköst á 19 mín. (á móti Noregi, 8.9.2007)

Fráköstin hjá íslenska liðinu þegar Margrét Kara var inná vellinum á móti Portúgal:
Margrét Kara Sturludóttir · 8 (3 í sókn)
Helena Sverrisdóttir · 4 (3)
Bryndís Guðmundsdóttir · 3 (2)
Sandra Lind Þrastardóttir · 2 (1)
Berglind Gunnarsdóttir · 1 (0)
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir · 1 (0)
Ingunn Embla Kristínardóttir  · 1 (0)
- Íslenska liðið vann fráköstin 20-13 á þeim 15 mínútum.