22 feb. 2016Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta setti nýtt met í Evrópukeppni í leiknum út í Portúgal á laugardaginn þrátt fyrir að stelpurnar hafi þurft að sætta sig við tólf stiga tap í Ilhavo.Íslenska liðið fékk nefnilega 25 stig frá bekknum í leiknum sem er það mesta í 19 leikjum íslenska liðsins í Evrópukeppni. Gamla metið var orðið rúmlega átta ára gamalt.
Bekkur íslenska kvennalandsliðsins hafði áður skorað mest 22 stig í einum leik en það gerði liðið gegn Hollandi í september 2007.
Íslenska liðið hafði fengið samanlagt 25 stig frá bekknum í fyrstu tveimur leikjunum á móti Ungverjalandi og Slóvakíu í nóvemberleikjum liðsins. Liðið fékk því jafnmikið frá bekknum í þriðja leik sínum og í þeim fyrstu tveimur til samans.
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði 12 stig á móti Portúgal á laugardaginn sem er það næstmesta sem íslensk kona hefur skilað af bekknum í Evrópuleik. Metið á enn Kristrún Sigurjónsdóttir sem skoraði 14 stig á móti Sviss árið 2008.Sandra Lind Þrastardóttir kom með 7 stig af bekknum sem er það ellefta mesta sem íslensk körfuboltakona hefur skilað af bekk í Evrópuleik.
Það háði íslenska liðinu vissulega í leiknum að fá ekki fleiri stig frá byrjunarliðinu en byrjunarliðsmennirnir skoruðu samanlagt 31 stig þar af var Helena Sverrisdóttir með 17 stig.Þetta er það næstminnsta frá byrjunarliði Íslands í Evrópukeppni en Hollandsleikurinn frá því í september 2007 (30 stig) á áfram metið.
Íslenska liðið mætir Ungverjalandi í fjórða leik sínum í undankeppni EM 2017 í Laugardalshöllinni á miðvikudagskvöldið. Leikurinn hefst klukkan 19.30.
Flest stig frá íslenska bekknum í einum Evrópuleik:
25 stig - gegn Portúgal (20.2.2016)
22 - gegn Hollandi (1.9.2007)
19 - gegn Írlandi (15.9.2007)
19 - gegn Sviss (27.8.2008)
19 - gegn Sviss (15.8.2009)
18 - gegn Írlandi (23.9.2006)
18 - gegn Slóvakíu (25.11.2015)
17 - gegn Svartfjallalandi (10.9.2008)
17 - gegn Slóveníu (3.9.2008)
Flest stig íslensks leikmanns af bekk í einum Evrópuleik:
14 stig - Kristrún Sigurjónsdóttir á móti Sviss (27.8.2008)
12 - Sigrún Sjöfn Ámundadóttir á móti Portúgal (20.2.2016)
11 - Hildur Sigurðardóttir á móti Hollandi (1.9.2007)
10 - Hildur Sigurðardóttir á móti Hollandi (19.8.2009)
9 - Kristrún Sigurjónsdóttir á móti Írlandi (23.9.2006)
9 - Hildur Sigurðardóttir á móti Sviss (15.8.2009)
8 - Bryndís Guðmundsdóttir á móti Sviss (15.8.2009)
8 - Kristrún Sigurjónsdóttir á móti Hollandi (9.9.2006)
8 - Kristrún Sigurjónsdóttir á móti Svartfjallalandi (29.8.2009)
8 - Sigrún Sjöfn Ámundadóttir á móti Írlandi (26.8.2009)
7 - Sandra Lind Þrastardóttir á móti Portúgal (20.2.2016)
7 - Kristrún Sigurjónsdóttir á móti Slóveníu (22.8.2009)