20 feb. 2016Tvær Grindavíkurstelpur eru í landsliðshópi Ívars Ásgrímssonar sem mætir Portúgal úti í Portúgal í undankeppni Evrópumótsins 2017. Það er við hæfi að Grindavík eigi sína fulltrúa í liðinu vegna þess hvar leikurinn fer fram. 

Leikur Íslands og Portúgals fer nefnilega fram í Ílhavo í Aveiro-sýslu í norður Portúgal í kvöld en Grindavík og Ílhavo í Portúgal hafa verið vinabæir síðan í ágústmánuði 2005. 

Allir heimaleikir portúgalska kvennalandsliðsins í undankeppninni verða spilaðir í Pavilion Captain Adriano Northeast í Ílhavo. Það má búast við góðri mætingu enda er frítt inn á leikinn sem fer fram á laugardaginn klukkan 18.30 að portúgölskum tíma.

Grindvíkingarnir í tólf manna hópi landsliðsins í Portúgal um helgina eru framherjinn Sigrún Sjöfn Ámundadóttir og bakvörðurinn Ingunn Embla Kristínardóttir sem eru reyndar báðar á sínu fyrsta tímabili með Grindavíkurliðinu.

Hvort að Sigrún og Ingunn Embla fái sérstakar móttökur frá bæjarbúum í Ílhavo verður að koma í ljós en þær þurfa örugglega að hafa jafnmikið fyrir sínum körfum og aðrir leikmenn í íslenska liðinu.

Sigrún og Ingunn Embla voru báðar atkvæðarmiklar í bikarúrslitaleiknum um síðustu helgi þar sem Grindavík varð að sætta sig við silfrið. Sigrún var með 11 stig, 17 fráköst og 5 stoðsendingar í leiknum og Ingunn Embla bætti við 10 stigum og 6 stoðsendingum.

Leikurinn á móti Portúgal verður fyrsti landsleikur Ingunnar Emblu Kristínardóttur sem leikmanns Grindavíkur en Sigrún Sjöfn spilaði báða leikina í undankeppninni í nóvember síðastliðnum. Ingunn Embla verður nítjánda landsliðskona Grindavíkur frá upphafi.

Upphaf samskipta Grindavíkurbæjar og Ílhavo má rekja til heimsóknar bæjarstjóra Ílhavo, Jose A. Ribau, og íslenska konsúlsins í Portúgal ásamt gestum í Saltfisksetrið veturinn 2004-2005. Í kjölfar þeirrar heimsóknar leitaði bæjarstjóri Ílhavo eftir vinabæjatengslum við Grindavíkurbæ.

Í Ílhavo eru höfuðstöðvar saltfiskinnflytjenda í Portúgal. Þar eru samtök framleiðenda ásamt öllum stærstu fyrirtækjum landsins í dreifingu og pökkun á saltfiski. Það er því ekkert skrýtið að þeir tengist vel Grindvíkingum.

Landsliðskonur Grindavíkur frá upphafi: (Dagsetning fyrsta landsleiks innan sviga)
1. Svanhildur Káradóttir     (26.12.1987)
1. Marta Guðmundsdóttir        (26.12.1987)
3. Stefanía Jónsdóttir        (17.5.1989)
4. Anna Dís Sveinbjörnsdóttir    (26.5.1993)
5. María Jóhannesdóttir        (14.12.1993)
5. Hafdís Hafberg        (14.12.1993)
7. Birna Valgarðsdóttir        (16.6.1998)
8. Sólveig Gunnlaugsdóttir    (27.12.2002)
9. Ólöf Helga Pálsdóttir    (28.5.2004)
10. Petrúnella Skúladóttir    (29.5.2004)
11. Erla Þorsteinsdóttir    (28.12.2004)
12. Jovana Lilja Stefánsdóttir    (9.9.2006)
13. Hildur Sigurðardóttir    (9.9.2006)
14. Ingibjörg Jakobsdóttir    (8.9.2007)
15. Íris Sverrisdóttir        (2.6.2009)
16. Pálína Gunnlaugsdóttir    (9.7.2014)
16. María Ben Erlingsdóttir    (9.7.2014)
18. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir    (21.11.2015)
19. Ingunn Embla Kristínardóttir (20.2.2016)