20 feb. 2016Pálína Gunnlaugsdóttir á möguleika á því að vera fjórða íslenska konan í hundrað stiga klúbbnum í Evrópukeppni þegar íslensku stelpurnar mæta Portúgal og Ungverjalandi í tveimur leikjum í undankeppni EM 2017.

Pálina vantar bara tíu stig til viðbótar en hún hefur skorað 90 stig í fyrstu 13 leikjum sínum í Evrópukeppni sem gera 6,9 stig að meðaltali í leik.

Helena Sverrisdóttir er langefst á blaði með 343 stig í Evrópuleikjum en þær Signý Hermannsdóttir (135 stig) og Birna Valgarðsdóttir (126) eru hinir meðlimirnir í hundrað stiga klúbbnum.

Pálína stóð sig vel í tveimur leikjum íslenska liðsins í undankeppninni í nóvember og var þá með 24 stig samtals eða 12 stig að meðaltali í leik.

Pálína hefur skorað 45 af 90 stigum sínum með þriggja stiga skotum eða helming stiganna. Það eru aðeins Helena Sverrisdóttir (22) og Kristrún Sigurjónsdóttir (17) sem hafa skorað fleiri þriggja stiga körfur fyrir íslenska kvennalandsliðið í Evrópukeppni.

Pálína náði Birnu Valgarðsdóttur (15) í leikjunum í nóvember og nú er að sjá hvort hún nái að taka annað sætið af Kristúnu í leikjunum á móti Portúgal og Ungverjalandi. Til þess að jafna Kristrúnu þarf Pálína að skora tvær þriggja stiga körfur.

Aðrar í liðinu eru ekki nálægt því að komast í hundrað stiga klúbbinn en Sigrúnu Sjöfn Ámundadóttur vantar fimm stig í viðbót til að skora 50 stig í Evrópuleikjum. Bryndís Guðmundsdóttir er síðan fjórði stigahæsti leikmaður liðsins í dag í Evrópuleikjum.

Leikur Íslands og Portúgals fer fram í Ílhavo í Portúgal á morgun og hefst klukkan 18.30 að staðartíma sem er sá sami og hér á landi.

Flest stig fyrir íslenska kvennalandsliðið í Evrópukeppni:
Helena Sverrisdóttir · 343
Signý Hermannsdóttir · 135 
Birna Valgarðsdóttir  · 126
Kristrún Sigurjónsdóttir · 96
Pálína Gunnlaugsdóttir · 90
Hildur Sigurðardóttir · 80
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir · 45
María Ben Erlingsdóttir · 45
Bryndís Guðmundsdóttir · 26
Petrúnella Skúladóttir · 19
Gunnhildur Gunnarsdóttir · 17
Ragna Margrét Brynjarsdóttir · 15

Evrópukeppnir og tölfræði Pálínu Gunnlaugsdóttur:
2006-07: 6 leikir, 14 stig, 1 þristur
2008-09: 5 leikir, 52 stig, 12 þristar
2015-16: 2 leikir, 24 stig, 2 þristar