20 feb. 2016Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta tapaði með tólf stiga mun, 68:56, á móti Portúgal í Ilhavo í Portúgal í kvöld, í þriðja leik liðsins í undankeppni EM 2017.
Íslenska liðið hefur þar með tapað þremur fyrstu leikjum sínum í riðlinum en fyrir leikinn höfðu Ísland og Portúgal tapað bæði fyrir Ungverjalandi og Slóvakíu.
Fjólubláu búningarnir voru svo sannarlega engir happabúningar fyrir íslensku stelpurnar í kvöld en það var þó afar slæm hittni (28 prósent) og misgóðar ákvarðanir í sókninni (24 tapaðir boltar) sem réðu örlögum liðsins í þessum leik.
Íslensku stelpurnar byrjuðu leikinn vel og þá sérstaklega varnarlega en þær voru sex stigum yfir (19-13) og höfðu haldið portúgalska liðinu í þrettán stigum á fyrstu fjórtán mínútum leiksins. Þegar á reyndi þá gekk ekkert að skora og íslenska liðið náði því ekki að nýta sér þennan góða varnarleik í upphafi leiks.
Það hefur verið kalt í íþróttahúsinu undanfarna daga og íslensku skotmennirnir náðu aldrei að hittna í kvöld. Liðið fékk heldur ekki mikið af körfum inn í teig og það nýttu Portúgalir sér vel. Portúgalska liðið fékk þannig 16 stigum fleira (34:18) inn í teig.
Íslensku stelpurnar héldu portúgölsku stelpunum í 36 prósent skotnýtingu og unnu fráköstin (42:31) en lið sem nýtir aðeins 11 af 36 tveggja stiga skotum sínum fagnar sjaldan sigri í leikslok.
Slæmur endir á öðrum leikhluta og tæplega sjö mínútna stigalaus kafli í þriðja leikhlutanum gerði íslenska liðinu erfitt fyrir. Portúgalska nýtti sér frostið í sóknarleiknum og tók völdin í leiknum.
Íslenska liðið barðist vissulega vel og spilaði góða vörn eins og í hinum tveimur leikjununm í Evrópukeppninni en sóknarleikurinn brást alveg og lykilmenn liðsins hittu ekki vel. Portúgalska liðið náði tíu stiga forskoti í þriðja leikhlutanum og hélt því nánast út allan leikinn.
Helena Sverrisdóttir var atkvæðamest í íslenska liðinu með 17 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar en hitti ekki vel (5 af 25, 20 prósent). Hún var þó ekki ein um það því byrjunarliðsleikmennirnir Pálína Gunnlaugsdóttir og Gunnhildur Gunnarsdóttir hittu aðeins úr 1 af 11 skotum sínum í kvöld.
Íslenska liðið fékk 25 stig frá bekknum, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði 12 stig og Sandra Lind Þrastardóttir var með 7 stig á 15 mínútum. Margrét Kara Sturludóttir var með 8 fráköst og 4 stig á 15 mínútum í sínum fyrsta landsleik í langan tíma.
Íslensku stelpurnar unnu fyrsta leikhlutann 14-11 og voru 19-13 yfir þegar 06:30 voru eftir af fyrsta leikhluta. Portúgalska liðið vann síðustu sex mínútur hálfleiksins 16:6 og var fjórum stigum yfir í hálfleik, 29:25.
Pálína Gunnlaugsdóttir byrjaði seinni hálfleikinn á því að setja niður þrist og minnka muninn aftur í eitt stig, 29:28 og Ragna Magrét Brynjarsdóttir minnkað síðan aftur muninn í eitt stig, 31:30, með góðri körfu þegar tæplega níu mínútur voru eftir að hálfleiknum.
Íslenska liðið skoraði þá ekki í rétt tæplega sjö mínútur og portúgalska liðið komst aftur í gang. Portúgalir enduðu þriðja leikhlutann eins vel og þann á undan sem skilaði þeim níu stiga forskoti fyrir lokaleikhlutann, 43:34.
Íslensku stelpurnar minnkuðu muninn tvisvar niður í sex stig í upphafi fjórða leikhlutans þökk sé þristum frá Sigrúnu Sjöfn Ámundadóttir en nær komust þær ekki.
Portúgalir juku forskotið aftur og komu muninum á endanum upp í tólf stig sem var alltof stórt tap fyrir íslenska liðið.
Íslenski hópurinn ferðast heima á morgun og mætir síðan Ungverjalandi í Laugardalshöllinni á miðvikudagskvöldið.
Stig íslenska liðsins á móti Portúgal í kvöld:
Helena Sverrisdóttir 17 stig (12 fráköst, 5 stoðsendingar)
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 12 stig (hitti úr 3 af 5 þriggja stiga skotum)
Bryndís Guðmunsdóttir 8 stig
Sandra Lind Þrastardóttir 7 stig (15 og hálf mínúta)
Margrét Kara Sturludóttir 4 stig (8 fráköst, 15 mínútur)
Pálína Gunnlaugsdóttir 3 stig
Ragna Margrét Brynjarsdóttir 2 stig (5 fráköst)
Berglind Gunnarsdóttir 2 stig
Gunnhildur Gunnarsdóttir 1 stig
Ingunn Embla Kristínardóttir spilaði líka en skoraði ekki.
Guðbjörg Sverrisdóttir og Jóhanna Björk Sveinsdóttir komu ekkert inná.