19 feb. 2016Helena Sverrisdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins, spilar tímamótaleik í Ilhavo í Portúgal á laugardaginn en þriðji leikur íslenska landsliðsins í undankeppni EM 2017 verður jafnframt hennar sextugasti landsleikur.
Helena verður fimmta konan til að ná því að spila sextíu A-landsleiki og sú fyrsta sem nær því í tæp sjö ár eða síðan að Signý Hermannsdóttir spilaði sinn sextugasta og næstsíðasta landsleik haustið 2009.
Anna María Sveinsdóttir var sú fyrsta sem komst í sextíu A-landsleikjaklúbbinn en því náði hún í síðasta landsleik sínum sem var í úrslitaleik Evrópumóts Smáþjóða í Andorra fyrir að verða tólf árum síðan.
Anna María átti þá mjög góðan leik og hjálpaði íslenska liðinu að vinna gullið. Anna María skoraði tólf af sautján stigum sínum í seinni hálfleik þar af átta þeirra í lokaleikhlutanum.
Anna María skoraði þessi 17 stig á aðeins 23 mínútum en hún tilkynnti það í leikslok að þetta hafi verið hennar síðasti landsleikur á ferlinum.
Helena Sverrisdóttir á vonandi eftir að bæta við miklu fleiri landsleikjum enda næstum því sjö árum yngri en Anna María var á sömu tímamótum.
Helena nær samt ekki að bæta met Hildar Sigurðardóttur sem er sú yngsta í sögunni til að spila sextíu landsleiki. Hildur var einu ári yngri en Helena er í dag þegar Hildur lék sinn sextugasta landsleik í september 2008.
Hildur bætti við sextán landsleikjum áður en hún lagði skóna á hilluna en hún er í dag landsleikjahæsta kona Íslands frá upphafi.
Yngsta konan til að spila sextugasta landsleikinn:
Hildur Sigurðardóttir
26 ára - 10 mánaða - 22 daga
- Lék hann á móti Írlandi í Dublin 6. september 2008
Helena Sverrisdóttir
27 ára - 11 mánaða - 9 daga
- Leikur hann á móti Portúgal í Portúgal 20. febrúar 2016
Birna Valgarðsdóttir
29 ára - 4 mánaða - 1 daga
- Lék hann á móti Englandi í KR-húsinu 20. maí 2005
Signý Hermannsdóttir
30 ára - 7 mánaða - 10 daga
- Lék hann á móti Írlandi á Ásvöllum 26. ágúst 2009
Anna María Sveinsdóttir
34 ára - 8 mánaða - 9 daga
- Lék hann á móti Lúxemborg í Andorra 31. júlí 2004
Flest stig í sextugasta landsleiknum:
17 - Anna María Sveinsdóttir
12 - Signý Hermannsdóttir
10 - Birna Valgarðsdóttir
0 - Hildur Sigurðardóttir