19 feb. 2016Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta er komið til Ilhavo í Portúgal eftir langt ferðalag sem lengdist um næstum því tvo tíma vegna vandræða með eina mikilvægustu töskuna í íslenska hópnum.
Allar töskur nema ein fylgdu íslenska hópnum frá Brussel til Lissabon en sjálf búningataskan var hvergi sjáanleg.
Það er ljóst að íslensku stelpurnar spila ekki leikinn á móti Portúgal búningalausar og því tekur við smá óvissa um hvort íslensku stelpurnar geti hreinlega klæðst landsliðstreyjunni á laugardaginn. Starfsmenn portúgalska sambandins hafa verið mjög hjálpsamir og fara í á morgun að athuga með að fá hana senda með fyrsta flugi.
Íslenski hópurinn lagði af stað frá Íþróttamiðstöðinni klukkan fimm í morgun og skilaði sér ekki upp á hótelið fyrr en rúmum tuttugu tímum síðar. Það voru því þreyttir Íslendingar sem mættu á hótel íslenska liðsins í Ilhavo rétt eftir miðnætti að staðartíma.
Ferðalagið gekk samt ágætlega, fyrst þriggja tíma flug til Brussel og svo annað tæplega þriggja tíma flug til Lissabon eftir nokkra tíma bið í Brussel sem íslenski hópurinn nýtti í stutt ferðalag til borgarinnar.
Vandræðin hófust þó þegar eins taskan skilaði sér ekki eftir flugið frá Brussel. Þegar betur var að gáð var það sjálf búningataskan sem vantaði sem eru ekki alltof góðar fréttir fyrir leikinn á laugardaginn.
Guðbjörg Norðfjörð, fararstjóri íslenska hópsins, fór strax í að reyna að hafa upp á töskunni mikilvægu en lítið var um svör. Á meðan beið bæði íslenski hópurinn og rútan eftir því að leggja af stað til Ilhavo sem eru í um þriggja tíma fjarlægð frá Lissabon.
Eftir að hafa gert viðeigandi ráðstafanir gat íslenski hópurinn lagt af stað búningalaus til Ilhavo. Nú er bara að vona að búningataskan skili sér til Ilhavo fyrir leikinn sem er klukkan 18:30 á laugardagskvöldið.
Íslenska liðið æfir tvisvar sinnum í íþróttahöllinni í Ilhavo á morgun og fær þá gott tækifæri til að hrista úr sér þetta langa ferðalag og kynnast um leið leikstað laugardagsins.